sidenav arrow up
sidenav arrow down

Samfélag

OR, Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur gegna því samfélagslega hlutverki að fólk njóti vatnsveitu, fráveitu, rafveitu, hitaveitu og gagnaveitu. Veigamesta samfélagslega ábyrgð Orkuveitu Reykjavíkur felst í því að þessi grunnþjónusta sé áreiðanlega fyrir hendi og ánægja sé meðal viðskiptavina með þjónustuna. Það skiptir líka máli hvernig þjónustan er veitt.

OR vill vera eftirsóknarverður vinnustaður og lítur svo á að hæft og ánægt starfsfólk sé forsenda þess að markmiðum verði náð. Á íslenskan mælikvarða er OR samstæðan stór og því gætir áhrifa starfshátta hennar víða um samfélagið. OR vill vera til fyrirmyndar og leitar stöðugra úrbóta við að rækja samfélagslega ábyrgð sína.

Ánægja viðskiptavina 2017-2019

Fyrirtækin innan samstæðunnar fylgjast grannt með ánægju viðskiptavina með því að gera reglubundnar þjónustukannanir. Niðurstaða þeirra myndar vísitölu sem hér er sýnd fyrir hvert dótturfyrirtækjanna þriggja. Mælingum Gagnaveitu Reykjavíkur á ánægju með þjónustu Ljósleiðarans var breytt á árinu 2019. Vikulega er hringt í um 100 viðskiptavini og þau spurð út í ánægju með þjónustuna. Símtölin á árinu 2019 voru alls 4.804. 96,6% viðskiptavina voru ánægð, 2,6% hlutlaus og 0,8% óánægð.

Þrátt fyrir að ánægja viðskiptavina ON samkvæmt þessum mælingum hafi dalað á árinu 2019 varð fyrirtækið efst í Íslensku ánægjuvoginni og hlaut viðurkenningu þess efnis í ársbyrjun 2020. Í Íslensku ánægjuvoginni er ánægja viðskiptavina mæld.

Ánægjuvogin - ON - IS.png

Þjónustuöryggi veitnanna

Útreikningur á afhendingaröryggi er byggður á aðferð sem lengi hefur verið við lýði hjá rafveitunum. Hún byggist á því að samanlögð lengd truflunar hjá hverjum notanda sem fyrir henni verður er deilt niður á alla viðskiptavini hverrar veitu. Veitur tóku þessa aðferð upp fyrir hitaveitu árið 2015 og fyrir vatnsveitu 2016.

Starfsánægja

OR og dótturfélögin hafa gengið í gegnum miklar breytingar síðustu ár. Ánægja starfsfólks samkvæmt reglubundnum vinnustaðargreiningum hefur vaxið og mælst á styrkleikabili allt frá árinu 2014. Starfsánægja dalaði lítilsháttar á árinu 2019 en telst enn á meðal styrkleika fyrirtækjanna.

S1 Launahlutfall forstjóra

Stjórn OR ræður forstjóra fyrirtækisins, semur starfslýsingu hans og ákveður starfskjör. Stjórn tekur mið af ákvæði eigendastefnu OR að laun stjórnenda skulu standast samanburð við sambærileg störf, þó að teknu tilliti til þess að fyrirtækið er í eigu opinberra aðila. Starfskjaranefnd OR endurskoðar laun forstjóra árlega með tilliti til markmiða og mælikvarða fyrirtækisins.

Fjárhæðir launa stjórna innan samstæðunnar, forstjóra móðurfyrirtækis og framkvæmdastjóra dótturfélaga eru birtar opinberlega í skýringum með ársreikningi samstæðu OR. Launahlutfall forstjóra er reiknað sem heildarlaunagreiðslur forstjóra deilt með miðgildi launa fastráðinna starfsmanna innan samstæðunnar.

Snemma árs 2019 lét forstjóri OR af stjórnarformennsku í tveimur dótturfélögum OR. Því lækkar launahlutfallið á milli ára.

Launahlutfall forstjóra

Kolefnissporið mitt

10,58 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Víðir Ragnarsson

Sérfræðingur í viðskiptagreind, OR

Það kom mér ekki á óvart er að kolefnissporið er lægra en meðalfólks varðandi ferðir og mat. Ég nota mikið frekar vistvænan bíl eða strætó og matarvenjur mínar og fjölskyldu minnar hafa breyst mikið í átt að minni kjötneyslu. Ég hef samt klárlega verk að vinna varðandi neyslu þar sem ég er yfir meðal Íslendingnum. Þar skiptir, held ég, helst máli að vera skipulagðari í innkaupum.

S2 Launamunur kynja

Jafnrétti kynjanna Góð atvinna og hagvöxtur Aukinn jöfnuður Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Orkuveita Reykjavíkur leggur mikla áherslu á jafnrétti kynjanna og hlaut Jafnréttisviðurkenningu Jafnréttisráðs 2014 og Hvatningarverðlaun jafnréttismála frá Samtökum atvinnulífsins 2015. OR er aðili að Jafnréttissáttmála Sameinuðu þjóðanna. Á árinu 2017 tók OR í notkun nýtt líkan sem greinir áhrif hverrar einustu launaákvörðunar á kynbundinn launamun. Með því átti fyrirtækið auðveldara með að útrýma kynbundnum launamun. Það tókst í árslok 2017 og hefur óútskýrður kynbundinn launamunur verið innan tölfræðilegra skekkjumarka síðan.

Jafnlaunakerfi OR hlaut jafnlaunavottun á árinu 2018. Sú vottun þýðir að það jafnlaunakerfi sem OR innleiddi á grundvelli líkansins uppfyllir ákvæði laga nr. 56/2017 um jafnlaunavottun. Kerfið er nýtt til að tryggja að OR mismuni starfsfólki ekki á grundvelli kyns þess.

Óútskýrður kynbundinn launamunur hjá OR 2006-2019

Óútskýrður kynbundinn launamunur hjá OR eftir mánuðum 2019

Jafnlaunavottun_2018_2021_300x353px.png

Í línuritunum hér að ofan tákna tölur hærri en 0 launamun körlum í hag og lægri en 0 launamun konum í hag. Um mitt ár 2017 tók OR upp mánaðarlegar mælingar á óútskýrðum kynbundnum launamun hjá fyrirtækinu.

S3 Starfsmannavelta

OR fylgist með starfsmannaveltu hjá samstæðunni meðal annars eftir aldri og kyni. Tengsl eru á milli efnahagsástands og starfsmannaveltu. Færra starfsfólk lét af störfum að eigin ósk á árinu 2019 en árin þar á undan. Nokkur fjöldi eldra starfsfólks lét af störfum á árinu og skýrir það að mestu leiti að önnur starfsmannavelta jókst lítillega frá árinu 2018 en var þó minni en 2017. Hverfandi hluti starfsfólks OR samstæðunnar er í minna en 100% starfi. Þess vegna er ekki reiknuð starfsmannavelta sérstaklega fyrir þann hóp.

Starfsmannavelta, öll sem hætta

Starfsmannavelta, hætta að eigin ósk

S4 Kynjajafnrétti

Jafnrétti kynjanna Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

OR er kynjaskiptur vinnustaður og unnið er að því að fjölga konum meðal iðnaðarmanna og sérfræðinga og körlum meðal skrifstofufólks. Á meðal stjórnenda var hlutfall kynjanna nákvæmlega jafnt í árslok 2019.

Samkvæmt úttekt Ernst & Young fyrir samtökin Konur í orkumálum sem gefin var út í maí 2019 eru áhrif kvenna innan orkugeirans mest hjá OR samstæðunni. OR hefur ekki tölur yfir kynjaskiptingu meðal verktaka.

Kynjahlutfall eftir starfaflokkum

Ákvörðunarvald kvenna innan íslenskra orku- og veitufyrirtækja

Kolefnissporið mitt

10,13 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Fríða Rakel Linnet

Sérfræðingur í fjárfestingarverkefnum rafveitu, Veitur

Neyslan mín er greinilega meiri en ég hélt og hefur verri áhrif en ég hélt. Ég reyni að nýta vel það sem ég á eða gefa hlutum framhaldslíf. Reyni að takmarka allskonar neyslu og þar á meðal reyni ég að halda fataskápnum minímalískum. Að reyna að kaupa bara hluti sem vantar en ekki hluti sem mig langar í hefur einnig hjálpað.

En ég þarf greinilega bara að gera betur! Alltaf gott að fá spark í rassinn.

S5 Hlutfall tímabundinna starfskrafta

Menntun fyrir alla Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Löng hefð er fyrir því hjá veitufyrirtækjunum að ráða ungmenni til sumarstarfa og eru þau mikill meirihluti tímabundinna ráðninga. OR og dótturfyrirtækin kaupa að mikla vinnu frá stórum fyrirtækjum á borð við verkfræðistofur og framkvæmdaverktaka. Sumt starfsfólk stærri og smærri verktaka vinnur að verulegu leyti fyrir OR eða dótturfyrirtæki. Sá hópur hefur ekki verið skilgreindur og OR hefur ekki tölulegar upplýsingar um samsetningu hans.

Tímabundnar ráðningar

Kynjaskipting nýrra fastráðninga

S6 Aðgerðir gegn mismunun

Jafnrétti kynjanna Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Jafnréttisstefnan er skuldbinding Orkuveitu Reykjavíkur um stöðugar umbætur í jafnréttismálum. OR leggur mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar til grundvallar jafnréttisstefnu sinni. Jafnréttisnefndir eru starfandi innan allra fyrirtækjanna í samstæðu OR og vinnur hver nefnd eftir framkvæmdaáætlun og er það á ábyrgð æðsta stjórnanda hvers fyrirtækis að hún sé í samræmi við Jafnréttisstefnu OR, sem samþykkt er af stjórn.

Á árinu 2019 var meðal annars áfram unnið að verkefninu Iðnir og tækni með strákum og stelpum úr Árbæjarskóla. Haldnir voru samráðsfundir og vinnustofur, sem hverjum og einum starfsmanni bar að sækja, með það að markmiði að leggja grunn að nýjum samskiptasáttmála samstæðunnar. Hann verður gefinn út á fyrri hluta árs 2020.

Hlutfall starfsfólks sem segist hafa orðið fyrir einelti eða kynferðislegri áreitni

S7 Vinnuslysatíðni

H-tala er alþjóðleg mælieining fyrir tíðni vinnuslysa. Hún er reiknuð sem fjöldi slysa á hverjar milljón unnar vinnustundir hjá viðkomandi fyrirtæki. Talin eru slys sem leiða til a.m.k. eins dags fjarveru frá vinnu. Þau voru sex árið 2019 hjá OR samstæðunni og unnar vinnustundir voru 1.057.601.

Fjarveruslys á hverja milljón vinnustunda

OR lítur svo á að ekkert verk sé svo mikilvægt að hætta megi öryggi starfsfólks við framkvæmd þess. Stefna OR í öryggis- og heilbrigðismálum (ÖH-stefna) er rýnd árlega af stjórnum félaganna í samstæðunni. Stefnt er að slysalausum vinnustað. Það markmið náðist ekki árið 2019. OR gerir skýrar kröfur um öryggismál í öllum útboðum og þá kröfu til verktaka í framkvæmdaverkum að öryggisreglum fyrir verktaka sé fylgt. Þá hefur OR gefið út Öryggishandbók sem hefur staðið starfsfólki OR og verktökum til reiðu um árabil. Gerð er krafa um að starfsmenn verktaka sæki viðurkennt námskeið í öryggismálum.

OR starfrækir tilkynningagrunn sem starfsfólk skráir í hættur og ábendingar um tækifæri til umbóta. Skráningarnar eru grunnur umbótastarfs í öryggis- og heilsumálum og hefur þeim fjölgað ár frá ári. Hver og ein tilkynning er tekin til skoðunar og staðfest skal að úrlausn hennar sé lokið. Vaxandi fjöldi skráninga er talinn til marks um vaxandi öryggisvitund og batnandi öryggismenningu í samstæðunni.

Tilkynningar í Björgu, öryggis- og heilsugrunn OR-samstæðunnar

Kolefnissporið mitt

8,91 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Lea Steinþórsdóttir

Netsérfræðingur IP netkerfis, GR

Við fjölskyldan erum nokkuð neyslugrönn, fyrir utan húsnæðislánið, og því kemur á óvart hversu kolefnisspor hennar er hátt. Ég geri mér grein fyrir því að aksturinn minn mengar mikið en á Íslandi er það varla fólki bjóðandi að notast við almenningssamgöngur eins og þær eru í dag. Ef ég horfi aðeins út fyrir eigin rann þá finnst mér að það megi skoða mengun allra skemmtiferðaskipanna sem leggjast hér að við bryggjur landsins. Einhvern tíma heyrði ég að eitt skip mengi svipað og allur bílafloti landsins. En það er bara skemmtileg pæling.

S8 Hnattræn heilsa og öryggi

Heilsa og vellíðan Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Veikindi starfsfólks

OR hefur stefnu í öryggis- og heilsumálum sem er reglulega rýnd af stjórn OR. Eitt af markmiðum OR samstæðunnar er að draga úr heildarveikindahlutfalli starfsfólks vegna slysa og veikinda og að sú tala verði kominn niður í 3,6% árið 2023.

Á síðasta ári dró verulega úr heildarveikindahlutfalli starfsmanna, það fór úr 4,1% í 3,6% fyrir árið 2019. Það er góður árangur sem ræðst í senn af fáum og síður alvarlegum fjarveruslysum og að árviss inflúensa var almennt vægari hér á landi árið 2019 en fyrri ár. Verkefnið framundan er að viðhalda þessum árangri og leita leiða til að gera enn betur. Liður í því er að leyfa starfsfólki að stunda líkamsrækt í vinnutíma og hvetja það einnig með öðrum hætti til að huga að eigin heilsu. Nú getur starfsfólk stundað líkamsrækt tvo tíma á viku á launum, boðið er upp á skipulagða tíma í krossfit, jóga og dans fitness í líkamsræktaraðstöðunni í höfuðstöðvum OR. Þá eru reglulega haldnir fyrirlestrar um heilsutengd málefni, boðið upp á heilsufarsmælingar og bólusetningar við inflúensu. Starfsfólk er jafnframt hvatt til að taka þátt í heilsutengdum íþróttaviðburðum eins og Lífshlaupinu og Hjólað í vinnuna.

S9 Barna- og nauðungarvinna

Ábyrg neysla Jafnrétti kynjanna Aukinn jöfnuður Menntun fyrir alla Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

OR kappkostar að starfa í samræmi við íslenska vinnulöggjöf og stefna fyrirtækisins í ÖH-málum og starfskjaramálum gengur lengra en löggjöfin á þessum sviðum. OR gerir sér grein fyrir hættu á því að verktakar á vegum OR eða undirverktakar þeirra fylgi ekki reglum. Í því skyni hefur OR meðal annars;

  • sett inn heimildarákvæði um riftun samninga við verktaka sem verða uppvísir að brotum á reglum íslensks vinnumarkaðar,
  • gert kröfu um að reikningar vegna tiltekinnar aðkeyptrar vinnu megi ekki vera fyrir lengri tíma en rúma sjö tíma á sólarhring nema með leyfi frá OR (slíkt leyfi hefur ekki verið veitt) og
  • gert kröfu í verksamningum um að launagreiðslur og tryggingar verktaka og undirverktaka þeirra séu í samræmi við íslensk lög.

Ekkert tilvik var um það á árinu 2019 að grípa þyrfti til ráðstafana samkvæmt þessum ákvæðum.

Þar sem alþjóðlegt vottunarkerfi er ekki fyrir hendi vegna barna- og nauðungarvinnu á OR erfitt með að staðfesta að slíkt fari ekki fram innan allrar virðiskeðju fyrirtækisins, t.d. í kaupum á vöru, en riftunarákvæði eru í öllum útboðsgögnum OR verði uppvíst um slíkt.

S10 Mannréttindi

Jafnrétti kynjanna Aukinn jöfnuður Ábyrg neysla Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Jafnréttisstefna OR tekur til mannréttinda samkvæmt þeim þáttum sem tilgreindir eru í stjórnarskrá Íslands. Í siðareglum fyrirtækisins er einnig sérstakur kafli helgaður mannréttindum og jafnrétti. Fræðsla um þetta efni er reglubundin. Vorið 2018 gekkst OR samstæðan fyrir vinnustofum með skylduþátttöku alls starfsfólks um #metoo byltinguna og merkingu hennar fyrir vinnustaðarmenningu OR samstæðunnar. Á árinu 2019 voru vinnustofur með starfsfólki til undirbúnings nýs samskiptasáttmála samstæðunnar. Útgáfa hans er áformuð 2020.

Varðandi áhrif OR á þróun mannréttindamála utan fyrirtækisins segir í innkaupastefnu OR að við innkaup og rekstur samninga skuli taka sérstakt tillit til mannréttindasjónarmiða. Það er meðal annars gert með kröfum í útboðsskilmálum.

Kolefnissporið mitt

11,28 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Jón Sævarsson

Sérfræðingur í greiningum, OR

Ég er með svipað kolefnisspor og meðal Íslendingurinn sem kemur mér svo sem ekki mikið á óvart. Þó maður telji sig meðvitaðan um kolefnissporið þá fylgir ekki hugur alltaf máli. Það vantar talsvert upp á svo ég geti komið mér úr hópi umhverfissóða og stuðlað að því að halda hnattrænni hlýnun innan 1,5°C. Til þess að svo megi vera þá er af nógu að taka, og í raun þarf lífstílsbreytingu. Ég þarf að taka verulega til í mataræðinu, sérstaklega draga úr kjötneyslu, rafvæða fjölskyldubílinn og færa mig nær bíllausum lífsstíl. Svo mætti ég draga almennt úr neyslu og samhliða því að nýta hluti betur.

Í starfsemi OR, þar sem lögð er áhersla á stöðugar umbætur, verður til margháttuð þekking sem nýst getur öðrum. Ræðst það meðal annars af;

  • forystu fyrirtækja innan samstæðunnar í jarðhitanýtingu,
  • að Veitur eru langstærsta fyrirtæki sinnar tegundar á landinu og
  • að Gagnaveita Reykjavíkur er með útbreiddasta ljósleiðaranet landsins.

OR lítur á það sem hlutverk sitt að miðla reynslu og þekkingu til annarra sem geta haft not af.

Árlega heldur OR samstæðan Vísindadag, þar sem ýmis þróunarverkefni eru kynnt. Nokkrir starfsmenn samstæðunnar kenna reglulega við háskóla og orkuskóla hér á landi og halda erindi á fagráðstefnum á Íslandi og erlendis.

Sá fróðleikur sem hefur víðast ratað er vafalaust sú þekking sem vísindafólk OR hefur aflað í samstarfi við fjölda annarra vísindamanna um bindingu jarðhitalofttegunda í basalti. Fjöldamargir mjög útbreiddir fjölmiðlar í heiminum hafa fjallað um verkefni OR og ON við Hellisheiðarvirkjun, sem þykir einstakt.

Erindi til þjónustuvers

Árið 2019 voru skráð tæplega 140 þúsund erindi til sameiginlegs þjónustuvers OR, Veitna, Orku náttúrunnar og Ljósleiðarans. Flest voru frá viðskiptavinum sem voru að skila mælaálestri sjálfir og þar á eftir komu fyrirspurnir og önnur erindi vegna reikninga. Í myndritinu sést skipting erindanna eftir málaflokkum og í viðhengi að neðan er sérstök grein gerð fyrir ábendingum og kvörtunum vegna umhverfismála. Þar er líka sagt frá tilkynningum til leyfisveitenda og tilefnum þeirra. Samstarf við leyfisveitendur, hagsmunaaðila og viðskiptavini er starfsfólki samstæðu OR mikilvægt því slík samvinna beinir athygli og áhersluatriðum að því sem skiptir fólk mestu máli. Dæmi um slíkt eru reglubundnir fundir með leyfisveitendum og miðlun upplýsinga frá OR samstæðunni á samfélagsmiðlum.

Erindi viðskiptavina við þjónustuver