Árið í hnotskurn

Árið 2019 var viðburðaríkt og lærdómsríkt í fjölbreyttum rekstri OR og dótturfyrirtækjanna. Hér er stiklað á helstu viðburðum.

Árið 2019 var viðburðaríkt og lærdómsríkt í fjölbreyttum rekstri OR og dótturfyrirtækjanna. Hér er stiklað á helstu viðburðum.

29. janúar 2019

Kuldakast reynir á hitaveituna

Veitur virkja viðbragðsáætlun í rekstri hitaveitunnar vegna kuldakasts. Rennslið um hitaveituæðar Veitna á höfuðborgarsvæðinu nær nýjum hæðum, 16 þúsund tonnum á klukkustund að jafnaði í sólarhring. Það er mesta notkun sem sést hefur. Unnið er samkvæmt viðbragðsáætlunum til 2. febrúar.

5. febrúar 2019

OR gefur út græn skuldabréf

Orkuveita Reykjavíkur hefur útgáfu á grænum skuldabréfum til að fjármagna þau fjölmörgu grænu verkefni sem eru á döfinni hjá OR og dótturfyrirtækjunum Veitum og Orku náttúrunnar. Skuldabréfaútgáfan, sem hefur hlotið hina eftirsóttu einkunn að vera dökkgræn, eru síðan tekin til viðskipta á Nasdaq Iceland Sustainable Bond markaðnum.

19. febrúar 2019

Berglind Rán Ólafsdóttir ráðin framkvæmdastjóri ON

Stjórn Orku náttúrunnar ræður Berglindi Rán Ólafsdóttur framkvæmdastjóra fyrirtækisins eftir að starfið hafði verið auglýst. Berglind hafði starfað hjá ON frá árinu 2017.

5. mars 2019

Gagnaveita Reykjavíkur krefst bóta vegna lögbrots Símans

Gagnaveita Reykjavíkur krefur Símann um tæplega 1,3 milljarða króna skaðabætur vegna fjárhagslegs tjóns sem fyrirtækið hefur orðið fyrir sökum brots Símans á fjölmiðlalögum.

4. apríl 2019

Átak í innviðum fyrir rafbíla

Á opnum ársfundi OR skrifa borgarstjóri, forstjóri OR og framkvæmdastjóri Veitna undir samkomulag um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Samsvarandi samningar eru gerðir við Akranes og Garðabæ síðar á árinu.

15. maí 2019

Ný fjölorkustöð býður vetni og rafmagn frá ON

Forseti Íslands tekur formlega í notkun nýjustu og fjölbreyttustu fjölorkustöð landsins. Orka náttúrunnar kemur að stöðinni með tvennum hætti; rekur þar hraðhleðslur og útvegar vetni fyrir vetnisbíla.

23. maí 2019

Áhrif kvenna mest hjá OR-samstæðunni

Konur í orkumálum gefa út skýrslu um áhrif kvenna innan orku- og veitufyrirtækja á Íslandi. Þau reynast mest innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur.

24. maí 2019

30 þúsund laxaseiðum sleppt í Andakílsá

30 þúsund laxaseiðum komið fyrir í tveimur sleppitjörnum við Andakílsá. Þetta er liður í endurreisn lífríkis árinnar í kjölfar aurburðar sem varð sumarið 2017 vegna viðhalds og ástandsmats á stíflumannvirkjum Andakílsárvirkjunar.

29. maí 2019

Niðurstöður hugmyndasamkeppni um sögu- og tæknisýningu í Elliðaárdal kynntar

Tillaga með nafninu „Með orkunni úr ánni er tertan bökuð“ var í dag valin til verðlauna í hugmyndasamkeppni um sögu- og tæknisýningu í Elliðaárdal. Það var Orkuveita Reykjavíkur sem gekkst fyrir samkeppninni í samstarfi við Hönnunarmiðstöð. Fyrirhuguð sýning mun nýta hina tæplega aldargömlu rafstöð í Elliðaárdal auk nærliggjandi húsa.

18. júní 2019

Viljayfirlýsing um að „Gas í grjót“ nýtist stóriðjunni

Að forgöngu stjórnvalda er undirrituð viljayfirlýsing um að stóriðjan á Íslandi kanni til hlítar hvort það sé fýsilegt að binda kolefnisútstreymi hennar í berglögum með CarbFix-aðferðinni sem OR og ON hafa þróað við Hellisheiðarvirkjun.

3. júlí 2019

Ísland er landið fyrir rafbíla - ON gefur út tímamótarannsókn

Rannsókn Orku náttúrunnar á kolefnisfótspori rafbíla við íslenskar aðstæður kemur út. Heildarlosun rafbíls, frá framleiðslu að 220 þúsund km. akstri, er einungis fimmtungur til fjórðungur af heildarlosun bíla sem nota jarðefnaeldsneyti.

4. júlí 2019

Græn skuldabréf OR skráð á markað

Orkuveita Reykjavíkur verður fyrst íslenskra fyrirtækja til að skrá græn skuldabréf á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf.

23. júlí 2019

Gestur ráðinn framkvæmdastjóri Veitna

Stjórn Veitna ræður Gest Pétursson framkvæmdastjóra fyrirtækisins að undangenginni auglýsingu. Gestur kemur til Veitna úr forstjórastóli Járnblendiverksmiðjunnar á Grundartanga.

7. ágúst 2019

Sniglarnir og ON fara hringveginn á rafmagnsbifhjólum

Í tilefni 35 ára afmælis Sniglanna, Bifhjólasamtaka lýðveldisins, er lagt upp í vikuleiðangur allt í kringum Ísland á rafmagnsbifhjólum í samstarfi við ON. Þrátt fyrir rysjótt veður nær hersingin til Reykjavíkur þar sem haldið er málþing um orkuskipti í þessum anga samgangna.

16. ágúst 2019

Veitur leiðrétta vatnsgjöld ársins 2016

Eftir úrskurð samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins í kjölfar kæru, leiðrétta Veitur vatnsgjöld ársins 2016 í þremur af sveitarfélögunum sem fyrirtækið þjónar.

19. ágúst 2019

Forsætisráðherra Svíþjóðar heimsækir Hellisheiðarvirkjun

Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar sótti Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar heim í dag með nokkru föruneyti til að kynna sér jarðhitanýtingu hér á landi. Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tekur á móti Stefan ásamt Brynhildi Davíðsdóttur, stjórnarformanni OR, og Bjarna Bjarnasyni forstjóra.

20. ágúst 2019

Merkel kynnir sér jarðhitanýtinguna á Hellisheiði

Brynhildur Davíðsdóttir, stjórnarformaður OR, og Bjarni Bjarnason forstjóri taka á móti Angelu Merkel Þýskalandskanslara í Hellisheiðarvirkjun og eiga við hana og ráðgjafa hennar langt spjall um hagnýtingu jarðhita og kolefnisbindingu við Hellisheiðarvirkjun.

30. ágúst 2019

Fyrstu heimilin í Árborg tengd við Ljósleiðarann

Fyrstu heimilin í Árborg, nánar tiltekið á Selfossi, geta tengst Ljósleiðara Gagnaveitu Reykjavíkur. Ljósleiðaratengingar heimila í sveitarfélaginu eru í samræmi við viljayfirlýsingu við sveitarfélagið sem gerð var vorið 2018.

18. september 2019

Umhverfisráðherra tekur Matarsporið í notkun

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra tekur Matarsporið formlega í notkun. Matarsporið er kolefnisreiknir fyrir mötuneyti og og matsölustaði þróaður í af Verkfræðistofunni Eflu í samstarfi við Orkuveitu Reykjavíkur til að reikna kolefnisspor máltíða.

25. september 2019

Algaennovation Iceland opnar smáþörungaverksmiðju í Jarðhitagarðinum

Algaennovation Iceland opnar formlega smáþörungaverksmiðju í Jarðhitagarðinum við Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar að viðstöddum fjármála- og efnahagsráðherra. Þetta er fyrsta fyrirtækið sem hefur starfsemi í Jarðhitagarði ON í Ölfusi.

3. október 2019

Gerlamengun í vatnsbóli í Borgarfirði

Grunur kviknar um E. coli mengun í neysluvatni frá vatnsbóli Veitna í Grábrókarhrauni og fólki ráðlagt að sjóða neysluvatn. Vatnsbólið þjónar Borgarnesi, Bifröst og Varmalandi auk fjölda sumarhúsa og nokkurra lögbýla í Borgarfirði. Grunurinn er síðar staðfestur og tilmæli um suðu ekki afturkölluð fyrr en 16. október.

31. október 2019

Gagnaveitan hefur söfnun á upplýsingum um lögbrot

Gagnaveita Reykjavíkur hefur söfnun á upplýsingum um þau heimili sem hafa orðið fyrir barðinu á óleyfilegri aftengingu á ljósleiðaraþræði GR og þannig misst samband við Ljósleiðarann, opið gagnaflutningskerfi fyrirtækisins.

2. nóvember 2019

Kolefnisreiknir fyrir almenning tekinn í notkun

Orkuveita Reykjavíkur og EFLA verkfræðistofa gera öllum aðgengilegan kolefnisreikni á netinu þar sem hvert og eitt getur reiknað kolefnisspor sitt á einfaldan og fljótlegan hátt og þegið ráð um hvernig megi minnka sporið.

19. nóvember 2019

Aukinn kraftur í orkuskiptin

Orka náttúrunnar upplýsir að á næstu misserum stefni í að ON setji upp um 40 hleðslur fyrir rafbíla víðsvegar um land, þar af sautján 150kW hraðhleðslur. Þetta varð ljóst eftir að niðurstaða Orkusjóðs um styrkveitingar til uppbyggingar umhverfisvænna innviða lá fyrir.

20. nóvember 2019

OR verði kolefnishlutlaus árið 2030

Orkuveita Reykjavíkur einsetur sér að verða kolefnishlutlaus árið 2030. Þetta er metnaðarfyllra markmið en fyrirtækið hafði áður sett sér. Aukin förgun og hagnýting koltvíoxíðs frá jarðgufuvirkjunum Orku náttúrunnar mun vega þyngst í markmiðið náist.

21. nóvember 2019

Stóraukin kolefnisförgun ON á Hengilssvæðinu

Orka náttúrunnar ákveður að margfalda kolefnisförgun fyrirtækisins við jarðvarmavirkjanirnar á Hengilssvæðinu. Þetta tengist þeirri ákvörðun Orkuveitu Reykjavíkur, móðurfélags ON, að vera búin að kolefnisjafna alla starfsemi samstæðunnar fyrir árslok 2030. Það er tíu árum fyrr en áður hafði verið ákveðið.

5. desember 2019

Aukin lýsing vatns frá vatnsbólum í Heiðmörk

Veitur setja upp búnað til að lýsa hluta þess kalda vatns sem íbúar borgarinnar fá úr vatnsbólunum í Heiðmörk. Með því eru örverur, sem geta borist í vatnsbólin, gerðar óvirkar áður en vatninu er veitt út í dreifikerfið.

11. desember 2019

Gríðarleg notkun á Ljósleiðaranum í óveðri

Í miklu norðanáhlaupi sem gengur yfir allt land virðist fólk halda sig innandyra og ná sér upplýsingar og afþreyingu á netinu. Gagnaumferð um Ljósleiðara Gagnaveitu Reykjavíkur er fjórðungi meiri en venjulega og hefur aldrei nokkurn tíma verið meiri.

12. desember 2019

Veitur senda aðstoð norður í land

Veitur senda liðsauka norður í land þar sem RARIK og Landsnet vinna hörðum höndum við að koma flutningi og dreifingu rafmagns í samt lag eftir óveður sem geysar þar dögum saman.

12. desember 2019

Ljósleiðaravæðingu í þéttbýli á höfuðborgarsvæðinu lokið

Ljósleiðarinn nær nú til allra heimila í þéttbýli Kópavogs, Seltjarnarness, Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Mosfellsbæjar og Reykjavíkur. Sveitarstjórar þeirra sex sveitarfélaga sem eru á höfuðborgarsvæðinu taka á móti staðfestingu þess efnis frá Gagnaveitu Reykjavíkur.

17. desember 2019

OR býður út endurbyggingu Vesturhúss við Bæjarháls

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkir að bjóða út framkvæmdir við endurbyggingu hluta skrifstofuhúsnæðis fyrirtækisins við Bæjarháls í Reykjavík. Húsið mun taka nokkrum útlitsbreytingum.

21. desember 2019

Stærsta hitaveitubilun í Reykjavík í áraraðir

Alvarleg bilun verður á einni af aðalæðum hitaveitunnar rétt við Valsheimilið að Hlíðarenda og heitavatnslaust verður í nánast allri Vesturborginni. Viðgerð gengur þó vel og heitavatnsleysið varir í um 10 klukkutíma.

27. desember 2019

Nýtt félag um CarbFix kolefnisbindinguna

Tilkynnt er að á eigendafundi Orkuveitu Reykjavíkur hafi verið staðfest sú ákvörðun stjórnar fyrirtækisins að stofna opinbert hlutafélag um kolefnisbindingaraðferðina CarbFix, sem nýtt hefur verið við Hellisheiðarvirkjun með góðum árangri síðustu ár. Dr. Edda Sif Pind Aradóttir, sem verið hefur verkefnisstjóri CarbFix um árabil, stýrir nýja félaginu.