sidenav arrow up
sidenav arrow down

Umhverfismál

Samstæða OR er á meðal stærstu fyrirtækja landsins og frammistaða fyrirtækisins í umhverfismálum skiptir því máli. Samstæðan hefur unnið markvisst að því að draga úr neikvæðum áhrifum starfseminnar á umhverfi og náttúru. SulFix aðferðin, þar sem brennisteinsvetni er bundið í berg og frágangur raskaðra svæða með staðargróðri sem beitt er við Hellisheiðarvirkjun, eru skýr dæmi um að mögulegt er að grípa til aðgerða til að draga úr neikvæðum áhrifum á loft- og landgæði á umhverfisvænan og hagkvæman hátt.

Helstu umhverfisverkefni samstæðunnar má sjá í meðfylgjandi lista. Starfsemi samstæðu OR er vottuð samkvæmt ISO 14001 staðlinum. Samstæðan gefur reglubundnar skýrslur um umhverfismál til heilbrigðiseftirlita, Orkustofnunar og Umhverfisstofnunar sem jafnframt eru leyfisveitendur og sinna eftirliti með starfseminni.

Áhersla samstæðu OR í umhverfismálum:

  • Leggja ríka áherslu á vatnsvernd, sýna ábyrga vinnslu úr vatnsauðlindum og vinna heilnæmt neysluvatn til langrar framtíðar
  • Sýna ábyrga umgengni og vinnslu úr lághitaauðlindum
  • Sýna ábyrga umgengni og vinnslu úr háhitaauðlindum, draga úr losun brennisteinsvetnis og losa jarðhitavatn á ábyrgan hátt
  • Sýna ábyrga umgengni og rekstur fráveitu
  • Meðhöndla úrgang á ábyrgan hátt
  • Beita áfram árangursríkum aðferðum við frágang vegna rasks

Vatnsvernd og ábyrg vinnsla

Heilsa og vellíðan Hreint vatn og salernisaðstaða Sjálfbærar borgir og samfélög Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Árið 2019 tryggðu vatnsveitur Veitna íbúum og fyrirtækjum á veitusvæðinu heilnæmt neysluvatn sem samræmist gæðastöðlum, ákvæðum laga og reglna og markmiðum Veitna.

Gæði neysluvatns í Reykjavík

Vatnsból Veitna eru þrettán og er vatnið notað á höfuðborgarsvæðinu og á Vestur- og Suðurlandi. Vatnsból Orku náttúrunnar eru tvö. Dreifikerfi vatnsveitnanna þjónar alls um 45% þjóðarinnar. Markvisst hefur verið unnið að vatnsvernd, öðrum forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins.

Leysing og úrkoma geta valdið örverumengun í vatnstökuholum Veitna. Haustið 2019 mældust örverur yfir viðmiðunarmörkum í tveimur vatnssýnum úr borholum við Grábrók á Vesturlandi og einu sýni úr dreifikerfinu. Vegna mikillar úrkomu, í kjölfar þurrka sumarið 2019, komst yfirborðsvatn ofan í grunnvatn með þessum afleiðingum. Veitur hafa sett upp búnað til að lýsa kalda vatnið úr vatnsbólinu við Grábrók og hluta þess kalda vatns sem íbúar höfuðborgarsvæðisins fá úr vatnsbólunum í Heiðmörk. Með því eru örverur, sem geta borist í vatnsbólin, gerðar óvirkar áður en vatninu er veitt út í dreifikerfið. Vatn úr borholum á svokölluðu neðra svæði vatnstökusvæðisins í Heiðmörk fer í gegnum lýsingarbúnaðinn. Ekki er talin ástæða til að lýsa vatn úr dýpri holunum í Heiðmörk. Lýsing á vatni gerir einungis örverur óvirkar en kemur ekki í veg fyrir annars konar mengun, svo sem af völdum olíu og annarra efna. Hún dregur því ekki úr mikilvægi vatnsverndar í Heiðmörk.

Vatnsvernd

Vatnsverndarsvæði eru afmörkuð utan um vatnsból Veitna. Fylgst er með vatnsverndarsvæðum, þar á meðal flutningi á olíu, bensíni og öðrum varasömum efnum í Heiðmörk. Slys og atvik vegna hættulegrar hegðunar innan vatnsverndarsvæða eru skráð, fjallað um þau og ráðist í úrbætur eftir því sem við á. Til að fyrirbyggja mengunarslys tekur starfsfólk Veitna og verktakar sem vinna að framkvæmdum á vatnsverndarsvæðum umhverfisnámskeið áður en framkvæmd hefst. Þessi krafa er sett fram útboðsgögnum.

Til að minnka hættu á olíu- og efnaslysi á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins hafa Veitur átt samráð við Vegagerðina, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna um lokanir og úrbætur á vegum ásamt því að gera frekari grunnvatnsrannsóknir á svæðinu.

Örplast

Afar lítið örplast finnst í neysluvatni frá vatnsveitum Veitna. Það sýnir rannsókn gerð af ReSource International ehf. (RI) en tekin voru sýni í borholum, vatnsbólum, vatnstönkum og dreifikerfum. Fundust örplastsagnir í um helmingi sýnanna í dreifikerfinu en minna í borholum og vatnstönkum. Miðgildi þeirra vatnssýna sem tekin voru sýndi að um ein ögn fannst í hverjum 10 lítrum vatns. Til samanburðar má nefna að í rannsókn ORB Media á neysluvatni víða um veröld, sem birt var árið 2018, fundust að meðaltali 50 örplastsagnir í 10 l vatns. Í skýrslu sem gefin var út af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO), í ágúst 2019 kemur fram að þrátt fyrir að ekki sé til mikið af upplýsingum, sérstaklega um mjög smáar örplastsagnir, séu engar vísbendingar um að þær séu hættulegar heilsu manna. Stofnunin tekur fram að frekari rannsókna sé þörf.

Kolefnissporið mitt

7,28 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Marta Rós Karlsdóttir

Forstöðumaður auðlinda, ON

Miðað við að kolefnisspor hvers einstaklings þurfi gróflega að vera undir 1,5 - 2 tonnum af CO2 ígildum á ári til að halda hlýnun jarðar innan marka Parísarsamkomulagsins þá er kolefnisspor mitt allt of hátt! Helstu tækifærin til að minnka mitt fótspor er að draga úr neyslu og borða minna af dýraafurðum. Ég verð vandvirkari með hverjum deginum í bæði fæðuvali og neyslu því með aukinni fræðslu, aðgengilegum upplýsingum um umhverfisáhrif og ekki síst auknu framboði umhverfisvænni og sjálfbærari vörum er sífellt auðveldara að taka betri ákvarðanir.

E6 Vatnsnotkun

Eigin notkun

Árið 2019 nam vinnsla samstæðu OR á köldu vatni rúmlega 29 milljónum m3 og heitu vatni tæplega 92 milljónum m3. Af þeim 92 milljónum m3 sem framleiddir voru af heitu vatni voru um 39 milljónir m3 kalt vatn sem hitað var upp í virkjunum Orku náttúrunnar á Hengilssvæðinu en afgangurinn var hitaveituvatn úr lághitasvæðum.

Eigin notkun samstæðu OR á köldu vatni var tæplega 72 milljónir m3 og á heitu vatni rúmlega 646 þúsund m3.

Allur varmi sem notaður er til húshitunar á Hellisheiði er í lokuðu kerfi. Sama vatninu er hringdælt og varmanotkun er ekki mæld. Eigin notkun samstæðu OR á köldu vatni er nær eingöngu vegna jarðvarmavirkjana Orku náttúrunnar á Hengilssvæðinu. Þar var dælt upp tæplega 72 milljónum m3 af köldu vatni árið 2019. Þar af voru um 39 milljón m3 nýttir í varmaframleiðslu, m.a. til húshitunar á höfuðborgarsvæðinu, en um 33 milljónir m3 voru nýttir til rekstrar og kælingar á búnaði virkjana eða um 46%.

Hlutfall eigin notkunar Veitna á köldu og heitu vatni er mjög lítil miðað við framleitt magn. Veitur leggja áherslu á að lágmarka orkunotkun og sóun í veitukerfum.

Endurnýting

Um 60% af jarðhitavatninu frá Hellisheiðarvirkjun hefur verið skilað niður í niðurdælingarsvæðin við virkjunina og um 90% við Nesjavallavirkjun. Takmarkið með því að dæla niður jarðhitavatni í jarðhitageyminn er að lengja nýtingartíma hans.

Veitur leggja áherslu á að dæla bakvatni í jarðhitakerfin þegar við á.

Umhverfis- og auðlindastefna

Samstæða OR starfar eftir umhverfis- og auðlindastefnu sem er skuldbinding OR um stöðugar umbætur í umhverfismálum. Hún byggir á fimm meginreglum sem eiga við allar starfseiningar: Ábyrga auðlindastýringu, gagnsemi sem felst í aðgangi að veitum fyrirtækisins, áhrif losunar vegna starfseminnar, áhrif í samfélaginu og starfsemi fyrirtækisins. Áhersla er lögð á verndun neysluvatns, að tryggja sjálfbæra nýtingu auðlinda og að vinna eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar. Stefnt er á kolefnishlutleysi 2030 og sporlausa vinnslu. Í daglegri starfsemi er lögð áhersla á að nýta vel orku og aðföng og meðhöndla úrgang á ábyrgan hátt í samvinnu við birgja og verktaka. Stefnan nýtist sem grundvöllur góðs samstarfs við hagsmunaaðila.

Samstæðan hefur skilgreint þýðingarmikla umhverfisþætti með hliðsjón af þeim meginreglum sem fram koma í umhverfis- og auðlindastefnunni. Sett hafa verið markmið og skilgreind ábyrgð á meðhöndlun úrgangs, háhita-, lághita- og vatnsauðlindar ásamt nýtingu orku og lágmörkun sóunar.

Starfsemi samstæðu OR er ekki vottuð samkvæmt formlegu orkustjórnunarkerfi.

Ábyrg meðhöndlun úrgangs

Losun gróðurhúsalofttegunda frá urðuðum úrgangi jókst frá árinu 2015 en hefur dregist saman frá árinu 2017.

Hlutur úrgangs úr hreinsistöðvum fráveitu er mestur og er um 70% af heildarmagni urðaðs úrgangs. Takmarkaður möguleiki er á því fyrir Veitur, dótturfélag OR, að stýra því hve mikill úrgangur af þessari gerð fellur til í hreinsistöðvum þar sem hann kemur frá íbúum og atvinnulífi á veitusvæðinu. Veitur hafa í auglýsingaherferðum minnt á þann skaða sem blautþurrkur og annað rusl geta valdið í fráveitukerfinu.

Magn annars úrgangs en fráveituúrgangs ýmist dróst saman eða jókst. Í viðaukum má sjá hvernig úrgangur skiptist á milli úrgangsflokka, starfsstöðva og sveitarfélaga.

Flokkun úrgangs hjá samstæðu OR 2015-2019

Umhverfisumbætur við Andakílsárvirkjun

Árið 2019 hélt Orka náttúrunnar vinnustofu með fulltrúum Skorradalshrepps, Borgarbyggðar, landeigendum við Skorradalsvatn og Andakílsá og fulltrúum sumarhúsaeigenda við Skorradalsvatn. Í kjölfarið var gerð aðgerðaráætlun vegna umhverfismála við Andakílsárvirkjun byggð á þeim hugmyndum sem komu fram á vinnustofunni. Heimafólk kemur að framvindu áætlunarinnar.

Lífríki í Andakílsá

Lífríki í Andakílsá hefur tekið við sér eftir að mikill aur barst í ána við ástandsskoðun á inntaksstíflu Andakílsárvirkjunar í maí 2017. Samkvæmt niðurstöðum Hafrannsóknastofnunar er enn set í farveginum, einkum þar sem straumur en minnstur, en búsvæði gróðurs og dýra endurheimtast tiltölulega hratt. Árið 2017 var mokað uppúr veiðihyljum og er áformað að halda því áfram árið 2020.

Um 30.000 seiðum var sleppt í ána árið 2019 og verður það einnig gert árið 2020. Haustið 2019 gerði Hafrannsóknastofnun áætlun um seiðaeldi og áframhald rannsókna á lífríki árinnar. Orka náttúrunnar hefur fundað með veiðifélagi Andakílsár þar sem farið var yfir áætlun um seiðaeldi, tilhögun veiði sumarið 2020, tæmingu inntakslóns Andakílsárvirkjunar haustið 2020 og landbrot á bökkum Andakílsár.

Skorradalsvatn

Vatnshæð Skorradalsvatns fór yfir viðmiðunarmörk Orku náttúrunnar í janúar 2019 vegna mikilla vatnavaxta, vatnið fór þó aldrei yfir leyfileg mörk miðlunarleyfis sem eru 63,10 m.y.s.

Vöktun með dróna á landbroti á strandlengju Fitja, Fitjahlíðar og Grundarlands hófst árið 2019. Samkvæmt skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands frá í desember 2019 um vöktun votlendis á fitjum við innanvert Skorradalsvatn hafa ekki orðið miklar breytingar á gróðri næst vatninu frá síðustu mælingum árið 2011.

Fyrsta útgáfa af innstreymislíkani fyrir Skorradalsvatn er tilbúin og er nú unnt að sjá áætlað innstreymi í vatnið þrjá daga fram í tímann. Jafnframt er hafin vinna við gerð öldulíkans fyrir vatnið.

Kolefnissporið mitt

13,03 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Albert I. Ingimundarson

Matreiðslumeistari, OR

Þetta kemur mér ekki á óvart þar sem flugferðirnar eru nokkrar en neyslan er í hærri kantinum miðað við meðal Jóninn sem er áhugavert. Ég gæti spáð meira í hvað ég eyði og skoðað heppilegri ferðamáta, t.d. skipta út tengitvinnbílnum fyrir rafbíl en við hjólum nú þegar mikið til og frá vinnu. Við þurfum að sporna við áhrifum útblásturs á loftslag og okkar dýrmætu náttúru. Þessu pældi maður ekki í fyrir nokkrum árum. Við mannfólkið getum gert betur þegar kemur að umgengni okkar á Móður Jörð. En betur má ef duga skal!

Ábyrg umgengni og vinnsla úr lághitaauðlindum

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Árið 2019 var vinnsla á lághitasvæðum Veitna á höfuðborgarsvæðinu og flestum dreifisvæðum á landsbyggðinni í samræmi við skilgreiningu og markmið fyrirtækisins og ákvæði í lögum og reglugerðum.

Höfuðborgarsvæðið

Veitur reka þrettán hitaveitur; eina á höfuðborgarsvæðinu sem er sú stærsta, fimm á Vesturlandi og sjö á Suðurlandi. Hitaveiturnar þjóna um 65% þjóðarinnar. Lághitasvæðin á höfuðborgarsvæðinu eru nýtt jafnt og þétt. Eftirspurn á heitu vatni hefur aukist á höfuðborgarsvæðinu og var hún farin að nálgast þolmörk í heitavatnsforða. Því var ráðist í stækkun varmastöðvar á Hellisheiði sem áætlað er að verði gangsett í febrúar 2020. Ennfremur hófust árið 2019 rannsóknir á möguleika þess að vinna heitt vatn úr lághitasvæði í Geldinganesi við Reykjavík.

Það var söguleg stund í rekstri hitaveitunnar sumarið 2019 þegar heitu vatni frá jarðvarmavirkjunum var veitt til Mosfellsbæjar, Árbæjar, Ártúnshöfða og Kjalarness. Um leið var létt tímabundið á vinnslu úr lághitasvæðum í Reykjahlíð, Laugarnesi og Elliðaárdal sem gerði það mögulegt að safna meiri forða fyrir veturinn. Lærdómur af þessari aðgerð verður nýttur til að vinna að því að veita heitu vatni frá jarðvarmavirkjunum til alls höfuðborgarsvæðisins í framtíðinni. Gangi þessi áform eftir og hægt verður að nýta jarðhitasvæði innan sjálfbærnimarka bendir allt til þess að hægt sé að viðhalda notkun úr lághitasvæðum höfuðborgarsvæðisins um fyrirsjáanlega framtíð. Samhliða þessum verkefnum er lögð áhersla á það í framtíðaráætlunum hitaveitu að bæta nýtingu á heitu vatni og fullnýta orkustrauma.

Suður- og Vesturland

Ástand flestra lághitasvæða á Suður- og Vesturlandi er gott en þó eru undantekningar þar á.

Afla þarf meira heits vatns fyrir Rangárveitu sem þjónar m.a. þéttbýliskjörnunum Hellu og Hvolsvelli. Vatns- og gufuöflun var betri í Hveragerði árið 2019 en árið 2018. Tengingu borholu í Ölfusdal við veituna lauk í september 2019. Unnið er að því að setja háhitadjúpdælu í eina borholuna sem þjónar veitunni..

Vinnslu- og flutningsgeta var aukin í Þorlákshafnarveitu í byrjun desember 2019 en þá var tekin í notkun uppfærð stofndælustöð og dæla sett í holu sem áður var í sjálfrennsli.

Kolefnissporið mitt

9,27 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Gísli Sveinsson

Aðstoðarmaður framkvæmdastýru, ON

Neysla er stór hluti af kolefnissporinu mínu og það kemur mér á óvart. Á móti kemur að ég ferðast annað hvort á hjóli eða á tvinnbíl til vinnu. Það mun þurfa átak til að minnka neysluna hjá mér, en þessar tölur verða mér áskorun um að breyta venjum og minnka mitt kolefnisspor. Sérhver einstaklingur þarf að gera sitt.

Ábyrg umgengni og vinnsla úr háhitaauðlindum

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Sjálfbærar borgir og samfélög Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Fylgst er með virkni jarðhita á yfirborði á Hengilssvæðinu sem getur breyst náttúrulega en einnig vegna jarðvarmavinnslu. Engin ákveðin leið er til að greina vel á milli hvort um náttúrulegar breytingar er að ræða eða af mannavöldum. Breytingar í Hverahlíð hófust eftir að holur voru boraðar þar.

USOR2019_Vinnsla_breytingar_IS_.png

Vinnslusvæði jarðvarmavirkjana á Hengilssvæðinu og breytingar á yfirborðsjarðhita

Árið 2019 var orkuvinnsla á Nesjavöllum og á Hellisheiði í samræmi við nýtingarleyfi og markmið Orku náttúrunnar. Undanfarin ár hefur viðhald vinnslugetu virkjananna á Hengilssvæðinu verið eitt af mikilvægustu verkefnum fyrirtækisins.

Lokið var við borun á þremur vinnsluholum fyrir Hellisheiðarvirkjun á árinu 2019. Borun hófst á einni niðurdælingarholu við virkjunina sem klárast 2020. Ein vinnsluhola var boruð á Nesjavöllum árið 2019.

Tvær vinnsluholur voru boraðar í Hverahlíð árið 2019 og tengdar við Hellisheiðarvirkjun og ein vinnsluhola var boruð á Nesjavöllum árið 2019. Staða gufuforða í virkjunum Orku náttúrunnar er góð.

Vinnslugeta borholna í Hverahlíð er meiri en flutningsgeta Hverahlíðarveitu. Orkuöflunarkostir fyrir Hellisheiðarvirkjun voru kortlagðir árið 2019 og er niðurstaðan sú að vænlegasta leiðin til þess að viðhalda framleiðslugetu virkjunarinnar sé að auka flutningsgetu Hverahlíðarlagnar. Tvöföldun Hverahlíðarlagnar er nú talin ásættanleg aðgerð miðað við stöðu auðlindarinnar því dregið hefur úr niðurdrætti í Hverahlíð. Talið er að mun betri líkur séu á góðum árangri við boranir í Hverahlíð en á hinu hefðbundna vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar. Orka náttúrunnar fylgist vel með niðurdrætti í Hverahlíð, í eldra vinnslusvæði Hellisheiðarvirkjunar og á Nesjavöllum.

Þrátt fyrir að nýjar virkjanir séu ekki á döfinni á Hengilssvæðinu er fyrirsjáanlegt að stækka þarf núverandi vinnslusvæði ef viðhalda á fullri vinnslu í Hellisheiðarvirkjun og í Nesjavallavirkjun til lengri tíma. Forrannsóknir á mögulegum vinnslusvæðum eru hafnar til að undirbyggja faglega ákvarðanatöku um framtíðarsýn orkuöflunar og til að tryggja sjálfbæra nýtingu jarðhitaauðlindarinnar.

Losun jarðhitavatns og skjálftavirkni

Losun jarðhitavatns

Jarðhitavatni er dælt niður við Hellisheiðarvirkjun og Nesjavallavirkjun til að vernda yfirborðsvatn og grunnvatn því það er heitara en grunnvatn og með aðra efnasamsetningu. Annað markmið er að stýra niðurdælingu þannig að hún styðji við þrýsting í jarðhitageyminum sem stuðlar að aukinni sjálfbærni nýtingarinnar.

Undanfarin ár hefur verið unnið að mörgum rannsóknar- og þróunarverkefnum til að uppfylla kröfur um niðurdælingu á Hellisheiði og Nesjavöllum með nokkrum árangri.

Árið 2019 fór yfir 60% af jarðhitavökva sem tekinn var upp úr jarðhitageyminum á Hellisheiði (skiljuvatn og þéttivatn) í niðurdælingu, þar af 96% skiljuvatnsins. Það þéttivatn (þétt hrein gufa) sem ekki fór í niðurdælingu (38% jarðhitavökvans) gufaði upp í kæliturnum eða var losað í grunnar niðurdælingarholur. Um 2% jarðhitavökvans fór á yfirfall niðurdælingarveitu vegna skipulagðra eða óvæntra atvika í rekstri.

Árið 2019 var rúmlega 90% af jarðhitavökva sem tekinn var úr jarðhitageyminum á Nesjavöllum dælt í niðurdælingarholur. Uppbygging í niðurdælingarveitu við virkjunina undanfarin ár leiddi til þess að losun jarðhitavatns hefur undanfarin tvö ár verið í sögulegu lágmarki.

Þrátt fyrir árangur í niðurdælingarveitu Nesjavallavirkjunar fylgir jarðhitavinnslunni töluverð losun upphitaðs grunnvatns á yfirborð. Viðamikið eftirlit með grunnvatni með síritandi hitamælingum í borholum og lindum og sýnatöku hefur verið í gangi frá því virkjunin var gangsett árið 1990. Niðurstöður þessara mælinga benda ekki til að hitastig grunnvatns sé að lækka á svæðinu þrátt fyrir minni losun. Ástæður þess eru ekki ljósar en gætu verið þessar:

  • Niðurdæling jarðhitavatns skilar sér ekki í kólnun grunnvatns vegna þess að niðurdælingarvatnið blandast í grunnvatnið eftir rennslisleiðum neðanjarðar í berginu sjálfu
  • Endurbætur á losunarleiðum virkjunarinnar hafa ekki skilað sér ennþá í kólnun á grunnvatni við Þingvallavatn

Sumarið 2019 var upphitað grunnvatn frá jarðvarmavirkjunum nýtt í hitaveitu í Mosfellsbæ, Árbæ, Ártúnshöfða og á Kjalarnes í fyrsta skipti. Árið 2020 er ráðgert að ráðast í frekari aðgerðir til nýta meira af upphituðu grunnvatni frá virkjununum í hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu í stað þess að farga því.

Fylgst hefur verið með lífríki í Þorsteinsvík við Þingvallavatn frá því áður en Nesjavallavirkjun var reist. Niðurstöður mælinga Náttúrufræðistofu Kópavogs sýna að snefilefni í jarðhitavatni hafa ekki tölfræðilega marktæk áhrif á lífríkið.

Áfram verður unnið að greiningum á stöðu grunnvatns á Nesjavöllum þannig að Orka náttúrunnar nái markmiðum sínum um að minnka umhverfisáhrif Nesjavallavirkjunar.

Varmagjá2019b.png

Vatnshiti í Varmagjá við Þingvallavatn, þróun Nesjavallavirkjunar og mótvægisaðgerðir

Skjálftavirkni

Árið 2019 var uppfyllt það markmið samstæðu OR að jarðskjálftar sem hugsanlega tengjast niðurdælingu á jarðhitavatni valdi sem minnstum óþægindum og aldrei tjóni.

Niðurdæling jarðhitavatns, en einnig sprengingar í tengslum við jarðfræðirannsóknir og boranir á háhitasvæðum, geta valdið skjálftavirkni, svokallaðri örvaðri skjálftavirkni eða gikkskjálftum. Orka náttúrunnar vinnur eftir verklagi sem miðar að því að lágmarka hættu á örvuðum jarðskjálftum á og við Hengilinn.

Það er vel þekkt að skjálftar verði í tengslum við niðurdælingu jarðhitavatns einkum á Húsmúlasvæðinu við Hellisheiðarvirkjun. Skjálftarnir verða þegar niðurdælingin losar spennu sem hlaðist hefur upp í jarðlögum vegna jarðskorpuhreyfinga. Árið 2019 voru sendar út tvær tilkynningar til skjálftavaktar Veðurstofu Íslands og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna breytinga á niðurdælingu. Skjálftar fundust ekki í byggð.

Upplýsingar um berggrunninn í jarðhitakerfum eru mikilvægar vegna borana og vinnslu jarðhita. Í lok sumars 2019 voru sprengdar tíu litlar sprengjur í holum við Hverahlíð til að framkalla litla jarðskjálfta sem endurkastast í berggrunninum og veita upplýsingar um berggerðir niður á allt að 5 km dýpi. Orkan í sprengingunum var svipuð og í jarðskjálfta af stærðinni 1.5. Send var út ein tilkynning til skjálftavaktar Veðurstofu Íslands og Almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra vegna þessa. Skjálftar fundust hvorki í Hverahlíð né í byggð.

OR er þáttakandi í þremur verkefnum á vegum Evrópusambandsins sem miða að því að auka þekkingu á samspili jarðhitanýtingar og skjálftavirkni. Verkefnunum fylgir fjölgun jarðskjálftamæla á svæðinu, aukin vöktun og ítarlegri jarðskjálftarannsóknir.

Jarðhitagarður á Hellisheiði

Sjálfbær orka Nýsköpun og uppbygging Aðgerðir í loftslagsmálum Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun í Sveitarfélaginu Ölfusi, er leitað leiða til að auka fjölbreytta notkun á varma, rafmagni, vatni og jarðhitalofttegundum frá virkjuninni. Fjölbreytt notkun jarðhitans getur aukið hagkvæmni og eflt umhverfisvænan rekstur og nýsköpun í atvinnulífi. Orkutengdir auðlindastraumar eru nýttir í starfsemi Jarðhitagarðsins.

Yfirlit yfir orkutengda auðlindastrauma í Jarðhitagarði við Hellisheiðarvirkjun

Yfirlit yfir orkutengda auðlindastrauma í Jarðhitagarði við Hellisheiðarvirkjun

Dæmi um bætta nýtingu auðlindastrauma er að ýmis orkutengd aðföng eru nýtt fyrir ræktun smáþörunga hjá alþjóðlega sprotafyrirtækinu Algaennovation en fyrirtækið opnaði smáþörungaverksmiðju í Jarðhitagarði ON í september 2019. Úr þörungunum, sem eru uppspretta margskonar næringarefna á borð við Omega-3 fitusýrur, er framleitt fóður fyrir seiði en stefnt er að framleiðslu til manneldis í framtíðinni. Ennfremur er skiljuvatn frá Hellisheiðarvirkjun notað til framleiðslu á fæðubótarefni hjá fyrirtækinu GeoSilica. Talsvert af koltvíoxíði fellur til við raforkuframleiðslu á Hellisheiði. Ýmis sprotafyrirtæki hafa sýnt áhuga á því að nýta koltvíoxíðið og fleira frá virkjuninni.

Orka náttúrunnar framleiðir vetni í tilraunaskyni við Hellisheiðarvirkjun. Upp­setn­ing rafgreinis til vetnisframleiðslu er liður í evr­ópska verk­efninu Hydrogen Mobility Europe sem Orka nátt­úr­unn­ar tek­ur þátt í. Horft er til þróunar nýrra orkustrauma og framleiðslu eldsneytis eins og vetnis fyrir almenning og atvinnulíf vegna orkuskipta í samgöngum.

Ríkar kröfur eru gerðar til fyrirtækja sem ætla að starfa í Jarðhitagarði ON vegna vatnsverndar, ásýndar, ónæðis og umgengni. Á byggingartíma verkefna er gerð krafa um endurnýtingu gróðurþekju sem fellur til. Henni er komið fyrir aftur þegar jarðvinnu lýkur eða hún nýtt annarstaðar þar sem hennar er þörf.

Kolefnissporið mitt

7,39 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Ragnheiður Hrefna Magnúsdóttir

Forstöðumaður framkvæmda, Veitur

Mér sýnist ég vera með lægra kolefnisspor en meðaltal, líklega vegna þess að ég ek um á rafmagnsbíl, en ég sé ótal tækifæri til að lækka kolefnissporið mitt. Það sem kemur mér mest á óvart er hvað neyslan er stór þáttur í þessu miðað við t.d. húsnæði. Ég þarf að skoða hana og það hvernig ég get fækkað ferðum til útlanda eða a.m.k. kolefnisjafnað þær. Mikið væri það frábært ef Ísland tæki alvöru skref í að banna plastumbúðir og rör, það er eiginlega alveg sturlað hvað maður er að henda mikið af umbúðum í hverri viku.

Losun vegna fráveitu

Hreint vatn og salernisaðstaða Sjálfbærar borgir og samfélög Líf í vatni Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Veitur annast uppbyggingu og rekstur fráveitu í þéttbýli í Reykjavík, á Akranesi og í Borgarbyggð. Frárennsli frá Kópavogi, Mosfellsbæ og Seltjarnarnesi auk hluta Garðabæjar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða eða frá um 60% þjóðarinnar.

Fraveita_2019_IS.png

Frárennsli frá um 60% þjóðarinnar er hreinsað í hreinsistöðvum við Ánanaust og Klettagarða í Reykjavík

Hreinsistöðvar á Vesturlandi

Hreinsistöðvar á Vesturlandi

Á safnsvæði Veitna hafa íbúar og atvinnulíf aðgang að veitukerfi eða skólphreinsun í samræmi við lög og reglur.

Langtímamarkmið Veitna er að strendur borgarinnar verði ávallt hreinar. Samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er fjaran skilgreind sem útivistarsvæði. Losun óhreinsaðs skólps um yfirfallsútrásir er þó órjúfanlegur hluti þess fráveitukerfis sem byggt hefur verið upp á liðnum áratugum. Svo mun verða um næstu framtíð þrátt fyrir aðgerðir Veitna til að nálgast fyrrnefnda framtíðarsýn.

Dæmi um aðgerðir sem ráðist hefur verið í til að draga úr losun óhreinsaðs skólps um yfirföll er mótun verklags við markvissa lekaleit og endurskoðun hönnunarforsendna fyrir nýjar dælustöðvar. Vatn sem lekur inn í skólpkerfið tekur pláss og eykur líkur á að rennsli um lagnir og dælustöðvar verði umfram hámarksafköst, með tilheyrandi losun um yfirfallsútrásir. Breytt hönnun skólpdælustöðva getur aukið uppitíma þeirra verulega og aukið möguleika á því á að sinna viðhaldi án þess að stöðva rekstur. Þessa aðgerðir stuðla ennfremur að bættu vinnuumhverfi og öryggi starfsfólks. Unnið er að langtímaáætlunum um fulla aðgreiningu óviðkomandi vatns frá skólpkerfinu. Blöndu skólps og ofanvatns er nú veitt um 28% af safnkerfi fráveitunnar. Rennsli ofanvatns ræðst af veðri og sveiflur í rennsli eru það miklar að nær ómögulegt er að komast hjá yfirfallslosunum úr blönduðu fráveitukerfi með hagkvæmum hætti.

Niðurstöður mælinga á skólpmengun við jaðar þynningarsvæða í Faxaflóa árið 2019 sýna að fjöldi örvera var undir viðmiðunarmörkum fyrir saurkólígerla og saurkokka í öllum þeim 32 mælingum sem gerðar voru á árinu. Í grennd við yfirfallsútrásir Veitna í Reykjavík og víðar meðfram strönd borgarinnar reyndust 90 sýni af 100 vera undir viðmiðunarmörkum um saurkólígerla sem þýðir mjög lítil eða engin saurmengun samkvæmt reglugerð 796/1999 um varnir gegn mengun vatns. 99 sýni voru undir viðmiðunarmörkum um saurkokka.

Örverustyrkur í grennd við útrásir frá lífrænu hreinsistöðvum Veitna á Vesturlandi hefur mælst yfir mörkum sem skilgreind eru starfsleyfi undanfarin ár. Sjá árlegar yfirlitsskýrslur sýnatöku og mælinga sem aðgengilegar eru á vef Veitna.

Blágrænar ofanvatnslausnir

Veitur vinna að innleiðingu blágrænna ofanvatnslausna í samvinnu við sveitarfélög til að hægja á rennsli regnvatn af götum, vegum og öðrum svæðum ofan í fráveitukerfið. Íbúar og fyrirtæki geta einnig lagt sitt af mörkun við að hefta afrennsli af lóðum með blágrænum ofanvatnslausnum og draga þannig úr rennsli og líkum á losun um yfirföll í fráveitukerfinu. Veitur hafa látið meta áhrif yfirborðslausna á afköst fyrirhugaðrar nýrrar stofnlagnar ofanvatns í Laugardal í Reykjavík.

Örplast í skólpi

Rannsókn á örplasti í skólpi í hreinsistöðinni í Klettagörðum hefur sýnt að örplast finnst í nokkru magni í skólpi. Það er birtingarmynd víðtæks vanda, en flest bendir til að mikið magn örplasts berist lítt hindrað út í umhverfið hér á landi. Flest bendir þó til að ofanvatn flytji mun meira magn örplasts í sjó heldur en skólp. Litið er til örplastsvandans við mótun framtíðarsýnar Veitna um hreinsun skólps og ofanvatns.

Landbætur á athafnasvæðum OR

Aðgerðir í loftslagsmálum Líf á landi Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Samstæða OR hefur umsjón með tæplega 19.000 hekturum lands og eru tæpir 16.000 hektarar innan verndarsvæða. Í viðauka er birtur listi yfir tegundir fugla og plantna á válista sem hafa þar búsvæði. Lögð er áhersla á góðan frágang jafnóðum í verkum eins og kostur er, endurheimt náttúrlegs umhverfis og minnkun sjónrænna áhrifa á virkjanasvæðum Orku náttúrunnar og athafnasvæðum Veitna, Gagnaveitu Reykjavíkur og OR. Gróðurþekju er haldið til haga og hún nýtt til endurheimtar staðargróðurs á grónu landi. Þetta er gert í samvinnu við leyfisveitendur og í samræmi við markmið samstæðu OR.

Gróðursett voru birkitré í um 2,6 hektara af landi við Nesjavallavirkjun. Um 3,1 hektari var ræktaður upp með staðargróðri árið 2019 þar af 1,8 hektarar vegna framkvæmda og 1,3 hektarar vegna frekari landbóta. Orka náttúrunnar stefnir á stækkun landgræðslusvæða um 4 hektara á ári á rofnum svæðum utan framkvæmdasvæða á athafnasvæðum fyrirtækisins og um 4 hektara af landi á ári í skógrækt.

OR hefur umsjón með um 130 km af merktum gönguleiðum á Hengilssvæðinu sem hafa látið verulega á sjá vegna fjölda ferðafólks. Ráðist var í lokanir á viðkvæmum svæðum og lagfæringar á gönguleiðum sumarið 2019.

Lagfæring göngustíga fyrir og eftir

Lagfæring göngustíga á Hengilssvæðinu -Ljósmynd: Belinda Eir Engilbertsdóttir

Efnanotkun

Heilsa og vellíðan Líf í vatni Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Helstu varasömu efnin í notkun hjá samstæðu OR eru asbest, grunnefni sem nýtt er í einangrunarfrauð, klór, sýrur og basar, suðugas og jarðhitagös, olíur og leysiefni. Árið 2019 var töluvert notað af skaðlegum efnum líkt og undanfarin ár. Þær umbætur sem ráðist hefur verið í vegna geymslu á varasömum efnum, flokkun og förgun þeirra hafa aukið vitund starfsfólks á mikilvægi þessa málaflokks og þess að lágmarka notkun og losun hættulegra efna. Árið 2019 voru haldnar vinnustofur um varasöm efni fyrir starfsfólk sem notar slík efni. Ennfremur var áhersla lögð á merkingar varasamra efna með límmiðum og sett upp veggspjöld með leiðbeiningum.