Ávarp forstjóra

Bjarni Bjarnason

Á árinu 2019 vorum við minnt á það hversu mikilvægt er að grunnþjónusta samfélagsins virki. Rafmagn, hiti í húsum og nægt og heilnæmt neysluvatn eru hluti af þeim lífsgæðum sem við viljum búa við. Traust veituþjónusta kemur ekki af sjálfu sér og hún krefst þess að horft sé langt fram á veginn í rekstri veitukerfanna.

Vetrarstormar hafa geisað á Íslandi frá örófi alda og munu gera það áfram. Við höfum hins vegar byggt samfélag okkar þannig að það er orðið mun háðara veitunum en áður, sérstaklega rafveitunni. Við þurfum bara að líta í kringum okkur á heimilinu. Hitaveiturnar eru líka háðar rafmagni. Sums staðar er vatnið í þeim hitað í rafkötlum og sú hitaveita í landinu er vandfundin sem ekki reiðir sig að einhverju leyti á rafknúnar dælur.

Í rekstri fyrirtækja er rafmagnið jafnvel enn nauðsynlegra en á heimilunum. Það kemur ekki síst til af því að fjarskiptakerfin okkar þurfa straum. Án rafmagns stöðvast hjól atvinnulífsins. Þetta sáum við víða um land í desemberáhlaupinu 2019 og af því hlaust talsvert tjón, bæði á mannvirkjum og vegna röskunar á rekstri.

Þótt gustað hafi á höfuðborgarsvæðinu og hvesst hressilega þennan veturinn varð enginn viðskiptavinur straumlaus af þeim sökum. Rafdreifikerfið er ansi öflugt, tengivirki Veitna yfirbyggð og lagnir að langmestu leyti neðanjarðar því búið er að leggja þær loftlínur í jörð sem oftast skemmdust í vondum veðrum. Veitukerfi verða þó aldrei laus við bilanir. Þau eru mannanna verk sem hafa bilað og munu bila. Samhliða því að efla stórlega upplýsingar til viðskiptavina um truflanir í rekstrinum leitum við nýrra aðferða til að fylgjast með ástandi þeirra 16 þúsund kílómetra af lögnum sem flytja viðskiptavinum rafmagn, heitt vatn og kalt, gögn um ljósleiðara eða veita skólpinu frá þeim. Þrátt fyrir það munu verða bilanir og við þurfum að vera undir þær búin.

Nánast allur Vesturbærinn í Reykjavík varð heitavatnslaus eina dagstund í desember vegna bilunar á stofnæð. Tjón varð ekkert svo við vitum en áminningin var mikilvæg. Það er ekki sjálfgefið að öll þau lífsins gæði sem Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélögin veita virki alltaf. Það er á ábyrgð okkar stjórnenda fyrirtækjanna að slíkar truflanir séu sem minnstar og verði sem sjaldnast. Tölur birtar hér í skýrslunni sýna að Orkuveitan stendur sig vel en verðum að halda vöku okkar.

Grundvallarspurning hvað hitaveiturnar varðar er sú hvaðan ætlum við að fá það vatn sem við þurfum til að hita húsin okkar eftir tíu ár, tuttugu eða hundrað ár. Við glímum nú við vatnsskort í nokkrum af smærri hitaveitunum þar sem jarðhitaleit hefur ekki borið viðunandi árangur. Annars staðar eru viðfangsefnin af tæknilegum toga.

Framsýni er eitt af gildum Orkuveitu Reykjavíkur og ástæðan er sú að verkefnin sem fyrirtækinu er trúað fyrir eru ekki á förum. Við búum svo vel að náttúrugæðin sem við nytjum eru heldur ekki á förum ef við göngum almennilega um þau og nytjum á sjálfbæran hátt.

Þau náttúrugæði sem verðmætust eru – ekki fjárhagslega heldur vegna þess að þau eru okkur lífsnauðsyn – eru vatnsbólin. Við fengum vísbendingu um það á árinu, þegar upp kom smit í neysluvatni í Borgarfirði, að veðurfar geti ekki bara haft áhrif á vatnsmagnið í vatnsbólum heldur líka gæði vatnsins. Langvinnir þurrkar virðast hafa breytt aðstreymi að vatnsbólinu þannig að það varð fyrir áhrifum af nærliggjandi byggð, áhrifum sem ekki gætti áður. Í ljósi loftslagsvár og óvissunnar sem henni fylgja er umhugsunarefni hvort vatnsbólin standist breytingarnar. Helsta hættan sem steðjar að þeim eru þó bein áhrif mannanna og þar munum við áfram halda á lofti hagsmunum vatnsverndar ef við teljum þeim ógnað.

Sú veita sem virðist viðkvæmust fyrir loftslagsbreytingum er fráveitan. Aukinn úrkomuákafi er orð sem heyrist í fræðilegri umræðu og þýðir á mannamáli að hellidembur verða tíðari og geta valdið því að oftar verður asahláka. Við hvoru tveggja, dembunum og leysingavatninu, tekur fráveitan. Þetta þarf fráveitan að ráða við og við horfum í auknum mæli til þess að glíma við regnvatnið þar sem það fellur frekar en að leiða það í fráveituna. Það er í senn hagkvæmara og umhverfisvænna. Hækkandi sjávarstaða vegna bráðnunar heimskautaíss hefur líka áhrif á fráveituna. Í þeim hverfum sem lægst liggja eru fráveitulagnir nú þegar neðan sjávarmáls og það kallar á dælubúnað til að veita skólpinu til sjávar. Uppfærsla fráveitukerfisins, þar sem við höfum einsett okkur að strendurnar verði alltaf hreinar, verður að taka mið af loftslagsbreytingunum ekki síður en þeirri samfélagsbreytingu að fjöldi fólks baðar sig nú í sjónum við strendur höfuðborgarsvæðisins.

Fleira en loftslagið á jörðinni mun breytast næstu áratugina. Kraftarnir sem skapa framtíðina eru af mörgum toga og draga stundum hver í sína áttina. Tæknin breytist hratt og samtvinnun tækja og lausna, sem eru ótengd í dag, með fjarskiptum er sterkt hreyfiafl. Aukin og tíðari samskipti fólks um allan heim eru staðreynd á sama tíma og sumir pólitískir vindar eru heimóttarlegri en sést hefur um árabil. Alþjóðafyrirtækjum vex ásmegin með tilheyrandi hagsmunum og hagsmunagæslu en nýjar samskiptaleiðir hafa líka verið vettvangur aukinna áhrifa almennings á þróun mála. Hvernig framtíð þessir kraftar skapa er ekki hægt að segja til um. Möguleikarnir eru óteljandi. Það sem allar þær sviðsmyndir sem okkur dettur í hug að draga upp af framtíðinni eiga þó sammerkt er að sinna þarf þeim grundvallarþörfum samfélagsins sem Orkuveita Reykjavíkur ber ábyrgð á. Íslendingar munu, rétt eins og aðrir jarðarbúar, þurfa vatn, það mun þurfa að kynda hús á Íslandi, það mun þurfa fráveitu og að öllum líkindum munum við áfram nota rafmagn til að knýja verulegan hluta þeirra tækja og kerfa sem þjóna þörfum okkar. Hver sem þróunin verður mun samfélagið kalla á orkuvinnslu og veiturekstur.

Orkuveita Reykjavíkur vinnur að því að gera sumar myndirnar af framtíðinni líklegri en aðrar. Á grundvelli skýrrar stefnumótunar fyrirtækisins vinnum við að orkuskiptum í samgöngum, sporlausri vinnslu jarðhitans, vatnsvernd, umbótum í fráveitu, ábyrgri nýtingu auðlinda og gegn sóun. Við gerum okkar besta til að halda verði á þjónustunni lágu og við leggjum mikla áherslu á að Orkuveita Reykjavíkur sé góður vinnustaður sem mismuni ekki fólki og efli konur til starfa í hinum sögulega karllæga orku- og veitugeira. Við stefnum, með öðrum orðum, að því að Orkuveita Reykjavíkur stundi sjálfbæran rekstur.

Grunnurinn að því að starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur standist tímans tönn, sé sjálfbær, er að fjárhagurinn sé traustur. Öll háleit sjónarmið og heiðarlegur vilji geta farið fyrir lítið fylgi fjárhagsleg ábyrgð og hagsýni ekki þeim markmiðum sem við setjum okkur. Árið 2019 einkenndist af miklum fjárfestingum í rekstri Orkuveitunnar. Við framkvæmdum mikið, einkum í veitukerfunum, og á næstu árum þurfum við að verja fé til að uppfæra orkumælingakerfið okkar og til að gera við húseign fyrirtækisins við Bæjarháls. Þar munum við hafa hagsýni að leiðarljósi.

Árið 2019 var líka ár fjárhagslegrar nýbreytni. Orkuveita Reykjavíkur gaf út græn skuldabréf og varð fyrst íslenskra fyrirtækja til að skrá slík á markað hér á landi. Bréf OR voru, fyrst grænna skuldabréfa frá íslensku fyrirtæki, boðin á opnum markaði og í framhaldinu tekin til skráningar á markaði Nasdaq Ísland fyrir sjálfbær skuldabréf. Við teljum að fjármögnun af þessu tagi sé hagkvæmari en sú hefðbundna en hún leggur líka á okkur skyldur um að verkefnin sem við fjármögnum með grænum skuldabréfum standist strangar kröfur um ábyrgð gagnvart umhverfi og samfélagi. Vegna hlutverks og eðlis starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur getur nánast hvert einasta fjárfestingarverkefni fyrirtækisins verið grænt. Við útgáfu grænu skuldabréfanna þurfum við hins vegar að sýna fram á það. Það gerðum við og óháð úttektarfyrirtæki gaf öllum verkefnum að baki grænu skuldabréfanna hæstu einkunn. Við erum stolt af því. Einkunnin gefur til að kynna að við séum á réttri braut í takti við gildin okkar; framsýni, hagsýni og heiðarleika.