sidenav arrow up
sidenav arrow down

Loftslagsmál

OR samstæðan er á meðal stærstu fyrirtækja landsins og frammistaða Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaga í loftslagsmálum skiptir því máli. Samstæðan hefur verið í fararbroddi í nýsköpun og þróun á sviði loftslagsmála undanfarinn áratug. CarbFix aðferðin sem beitt er við Hellisheiðarvirkjun er skýrt dæmi um að það er mögulegt að grípa til aðgerða til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og úr þeirri loftslagsvá sem við stöndum frammi fyrir. Í desember 2019 hlaut stofnun CarbFix, nýs dótturfélags OR, staðfestingu eigenda, þ.e. Reykjavíkurborgar, Akranesbæjar og Borgarbyggðar.

Áhersla samstæðu OR í loftslagsmálum:

  • Stefnt er á kolefnishlutleysi árið 2030 eða tíu árum fyrr en áður var áformað
  • CarbFix, nýtt dótturfélag OR sem vinnur að aukinni föngun og bindingu koltvíoxíðs á lands- og heimsvísu
  • Vera drifkraftur í orkuskiptum í samgöngum

Á haustmánuðum 2019 gerðu Orkuveita Reykjavíkur og EFLA verkfræðistofa öllum aðgengilegan kolefnisreikni á netinu þar sem hvert og eitt okkar getur reiknað kolefnisspor sitt á einfaldan og fljótlegan hátt. Þá eru gefin ráð um hvernig minnka megi kolefnissporið út frá þeim upplýsingum sem slegnar eru inn. Það er á ábyrgð okkar allra að bægja burt loftslagsvánni. Ríki og sveitarfélög verða að gera sitt, fyrirtæki þurfa að taka sig taki og hvert og eitt okkar getur lagt lóð á vogarskál þess að jörðin verði lífvænlegri fyrir komandi kynslóðir.

Í köflum sem varða loftslagsmál er gerð grein fyrir losun gróðurhúsalofttegunda frá starfseminni og greint frá verkefnum sem ráðist er í til að markmiðið um kolefnishlutleysi árið 2030 náist.

E1 Losun gróðurhúsalofttegunda

Nýsköpun og uppbygging Aðgerðir í loftslagsmálum Sjálfbær orka Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Loftslagsmarkmið

Samstæða OR stefnir á kolefnishlutleysi árið 2030.

Aukin binding á koltvíoxíði í bergi við Hellisheiðarvirkjun og við Nesjavallavirkjun með CarbFix aðferðinni mun vega þyngst í að minnka losun gróðurhúsalofttegunda frá samstæðunni. Raf- og metanvæðing bílaflota fyrirtækisins skiptir einnig miklu máli ásamt hagnýtingu koltvíoxíðs í Jarðhitagarði við Hellisheiðarvirkjun. Ennfremur vinna Veitur að verkefnum til að bæta viðnámsþrótt veitukerfa vegna loftslagsvár.

Hlutfall heimila á Íslandi sem reiða sig á neysluvatn, fráveitu, rafmagn, hitaveitu og gagnaveitu frá samstæðu OR er 45 til 75%. Frá árinu 2015 hefur dregið úr koltvíoxíðslosun samstæðu OR miðað við veltu samstæðunnar. Útreikningar á losun gróðurhúsalofttegunda eru í samræmi við staðalinn Greenhouse Gas Protocol – Corporate Accounting and Reporting Standard.

Árið 2019 var hlutfallsleg niðurdæling koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun og binding í berg um 25% af útblæstri virkjunarinnar og nokkru minni en árið 2018. Ástæðan er sú að stöðva þurfti lofthreinsistöðina við virkjunina í töluverðan tíma vegna vinnu við stækkun á varmastöð og vegna ófyrirséðra bilana. Losun frá bílaflota samstæðu OR var rétt yfir markmiðum en losun vegna flugferða starfsfólks jókst og fór langt yfir markmið. Ljóst er að áfram þarf að minna á og vinna að því að draga úr losun vegna flugferða, matarsóunar o.fl.

Í nóvember samþykkti framkvæmdastjórn að ráðast í að kolefnisjafna bílaflota, flug o.fl. hjá samstæðunni vegna ársins 2019 með endurheimt votlendis á vegum Votlendissjóðs.

Bein og óbein losun samstæðu OR og binding með landbótum, 2015-2030

Bein og óbein losun gróðurhúsalofttegunda

Árið 2019 var umfang 1 eða bein losun frá kjarnastarfsemi samstæðu OR rúmlega 43.500 tonn CO2 ígilda. Losunin er frá jarðvarmavirkjunum Orku náttúrunnar vegna vinnslu á rafmagni og heitu vatni, vinnslu jarðvarma til húshitunar á lághitasvæðum Veitna, sem er metin nánast engin, frá HFC efnum í kerfi Veitna og frá bílaflota og húsnæði samstæðunnar. Umfang 2, óbein losun vegna notkunar rafmagns og hita í kjarnastarfsemi samstæðu OR var engin því samstæðan framleiðir rafmagn inn á landsnetið og er gerð grein fyrir losuninni í umfangi 1. Til að koma í veg fyrir tvítalningu er því engin losun tiltekin í umfangi 2. Umfang 3, óbein losun frá úrgangi vegna kjarnastarfsemi samstæðunnar, ferða starfsfólks í og úr vinnu og flugferða starfsfólks, var um 1.500 tonn CO2 ígilda. Þetta eru ekki tæmandi upplýsingar um umfang 3 því ekki er tekið tilli til framleiðslu aðfanga.

Umfang 1, eða bein losun frá kjarnastarfsemi samstæðu OR, var rúmlega 43.500 tonn CO2 ígilda árið 2019. Losunin er frá jarðvarmavirkjunum Orku náttúrunnar vegna vinnslu á rafmagni og heitu vatni, vinnslu jarðvarma til húshitunar á lághitasvæðum Veitna, sem er metin nánast engin, frá HFC efnum í kerfi Veitna og frá bílaflota og húsnæði samstæðunnar.

Umfang 2, óbein losun vegna notkunar rafmagns og hita í kjarnastarfsemi samstæðu OR var engin því samstæðan framleiðir rafmagn inn á landsnetið og er gerð grein fyrir losuninni í umfangi 1. Til að koma í veg fyrir tvítalningu er því engin losun tiltekin í umfangi 2.

Umfang 3, óbein losun frá úrgangi vegna kjarnastarfsemi samstæðunnar, ferða starfsfólks í og úr vinnu og flugferða starfsfólks, var um 1.500 tonn CO2 ígilda. Þetta eru ekki tæmandi upplýsingar um umfang 3 því ekki er tekið tilli til framleiðslu aðfanga.

Losun gróðurhúsalofttegunda frá samstæðu OR er innan við 1% af heildarlosun á Íslandi miðað við heildarlosun 2017 (Umhverfisstofnun, 2019).

Bein og óbein losun samstæðu OR árið 2019

Kolefnissporið mitt

9,74 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Jón Tryggvi Guðmundsson

Sérfræðingur fráveitu í rekstri og tækni, Veitur

Niðurstaðan í heild kemur mér ekki á óvart en ég hefði búist við að ferðir hjá mér hefðu meira að segja en neysla og matur. Það var áhugavert að sjá sundurliðun á kolefnissporinu niður á málaflokka. Það hjálpar að vera meðvitaður um hvar stærstu sporin liggja til að geta betur lagt mat á mótvægisaðgerðir. Og leiðirnar eru fjölmargar eins og bent er á í Kolefnisreikninum.

E2 Losunarkræfni gróðurhúsalofttegunda

Nýsköpun og uppbygging Aðgerðir í loftslagsmálum Sjálfbær orka Styður heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna

Losun á hverja einingu í rekstri, t.d. á veltu, framleidda einingu o.s.frv. er stundum kölluð losunarkræfni.

Losunarkræfni koltvíoxíðs

Miðað við veltu hjá samstæðu OR hefur losunarkræfni koltvíoxíðs samstæðunnar dregist saman frá árinu 2015 eða úr um 1.800 tonnum CO2 ígilda í rúmlega 950 tonn CO2 ígilda.

Orka náttúrunnar framleiðir rafmagn til neytenda og heitt vatn sem selt er í heildsölu til Veitna. Kolefnislosun á framleidda einingu rafmagns og heits vatns hjá virkjunum Orku náttúrunnar hefur lækkað frá 2015 og er nú 7,5 g CO2 ígildi á kílówattstund.

Veitur dreifa rafmagni og heitu vatni til neytenda, vinna neysluvatn og dreifa því ásamt því að reka fráveitu. Hjá Veitum hefur kolefnislosun vatnsveitu, hitaveitu, rafveitu og fráveitu lækkað frá árinu 2015.

Kolefnislosun gagnaflutnings um ljósleiðara hjá Gagnaveitu Reykjavíkur hefur lækkað á hverja einingu.

Athugið að eining fyrir rafmagn og heitt vatn er í kWst, kalt vatn er í m3, fráveita er í persónueiningum og gagnaflutningur um ljósleiðara er í gígabitum.

Þess ber að geta að skekkjumörk vegna losunar eru um 5%.

Samstæða OR losar ekki ósoneyðandi efni vegna starfsemi sinnar.

*Kolefnisspor hefur verið metið u.þ.b. 0 gr/kWst
**Skv. National Inventory Report er vegið meðaltal losunar gróðurhúsalofttegunda á kWst af rafmagni framleiddu með vatnsafli og jarðvarma á Íslandi árið 2017 8,8 g. Fyrir vatnsafl er losun gróðurhúsalofttegunda á kWst rafmagns 1,5 g og fyrir jarðvarma 29 g.

Hlutfallsleg niðurdæling koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun var um 25% og var nokkuð minni en árið 2018 vegna þess að stöðva þurfti lofthreinsistöðina við virkjunina í töluverðan tíma vegna vinnu við stækkun á varmastöð virkjunarinnar til að mæta þörf fyrir heitt vatn á höfuðborgarsvæðinu og vegna ófyrirséðra bilana.

Hlutfallsleg hreinsun koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun 2013-2019

Losunarkræfni brennisteinsvetnis

Miðað við framleidda einingu rafmagns hjá samstæðu OR hefur losunarkræfni brennisteinsvetnis hjá samstæðunni dregist saman frá árinu 2015 eða úr 5,7 grömmum brennisteinsvetnis á kílówattstund rafmagns í um 3,6 grömm.

Styrkur brennisteinsvetnis (H2S) í byggð fór ekki yfir viðmiðunarmörk í Norðlingaholti, Lækjarbotnum og Úlfarsárdal en fór einu sinni yfir mörkin í Hveragerði árið 2019. Árangur markvissrar hreinsunar og niðurdælingar á brennisteinsvetni frá Hellisheiðarvirkjun var umtalsverður árið 2019. Hlutfallsleg niðurdæling brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun var tæp 55% og var nokkuð minni en árið 2018 vegna þess að stöðva þurfti lofthreinsistöðina við virkjunina í töluverðan tíma vegna vinnu við stækkun á varmastöð virkjunarinnar og vegna ófyrirséðra bilana

Losun brennisteinsvetnis frá Nesjavallavirkjun og Hellisheiðarvirkjun var samtals um 12,8 þúsund tonn árið 2019.

Þess ber að geta að skekkjumörk vegna losunar eru um 5%.

Unnið er að áætlun um sporlausa vinnslu í báðum virkjunum Orku náttúrunnar á Hengilssvæðinu.

Hlutfallsleg hreinsun brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun 2013-2019

Kolefnissporið mitt

11,30 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Bellinda Eir Engilbertsdóttir

Sérfræðingur lóða og lendna, OR

Það er erfitt að sjá þetta kolefnisspor og þá í leiðinni hversu róttækar aðgerðir hver og einn þarf að fara í til að halda hnattrænni hlýnun innan marka. Ég bý á Akranesi en vinn í Reykjavík og ferðast á milli í samfloti eða vinn heima og sé ekki tækifæri til að minnka kolefnissporið þegar kemur að ferðum. En neyslan er klárlega eitthvað sem ég þarf að skoða gaumgæfilega, íhuga vel hver innkaup, hvort þau séu nauðsynleg eða óþarfi. Bæði fyrir budduna og umhverfið. Vandamálið er risavaxið en framtíð komandi kynslóða er háð því hvaða ákvarðanir við tökum í dag!

Samstæða OR vinnur endurnýjanlega orku, rafmagn og heitt vatn, úr jarðvarma og vatnsafli og notar sjálf um 9% af framleiddu rafmagni og um 1% af framleiddu heitu vatni.

Jarðefnaeldsneyti, einkum díselolía, og metan eru nýtt í tengslum við framkvæmdir og rekstur samstæðu OR. Þar sem allt eldsneyti er keypt af þriðja aðila er um óbeina orkunotkun að ræða.

Hlutfall beinnar orkunotkunar (rafmagn og heitt vatn) samstæðu OR er 99,9% og óbeinnar orkunotkunar (jarðefnaeldsneyti og metan) 0,1%, sjá mynd.

Til að upplýsingarnar séu sambærilegar er frumorkunotkunin sett fram í megajoule (MJ), sjá töflu.

Bein orkunotkun á hverja einingu í rekstri, t.d. stærð húsnæðis, stöðugildi o.s.frv. er stundum kölluð orkukræfni.

Eigin notkun á rafmagni er einkum vegna vinnslu á heitu vatni, dælingar í fráveitu, heitu og köldu vatni og reksturs fasteigna. Eigin rafmagnsnotkun miðað við stærð húsnæðis samstæðu OR hefur almennt aukist nokkuð frá 2015 og heitavatnsnotkun minnkað.

Til að upplýsingarnar séu sambærilegar er frumorkunotkunin sett fram í megajoule (MJ).

Rafmagns- og heitavatnsnotkun samstæðu OR miðað við stærð húsnæðis

Notkun jarðefnaeldsneytis á stöðugildi í samstæðu OR hefur minnkað miðað við árið 2015 en notkun metans hefur aukist, sjá mynd og töflu.

Til að upplýsingarnar séu sambærilegar er frumorkunotkunin sett fram í megajoule (MJ).

Eldsneytisnotkun á stöðugildi hjá samstæðu OR

Helstu orkugjafar

Samstæða OR vinnur endurnýjanlega orku, rafmagn og heitt vatn til húshitunar, úr jarðvarma og vatnsafli og notar hluta þessarar orku í starfsemi sína. Helstu orkugjafar sem eru nýttir í starfseminni eru rafmagn og heitt vatn og er um 99,9% endurnýjanlega orku að ræða. Til að upplýsingarnar séu sambærilegar er frumorkunotkunin sett fram í megajoule (MJ).

Hjá samstæðu OR eru kortlögð áhrif loftslagsvár á starfsemi samstæðunnar því viðnámsþróttur veitukerfa í þessa veru hefur bein áhrif á getu fyrirtækisins til að starfa og vera grunnur að lífsgæðum íbúa og atvinnulífs. Sjá nánari umfjöllun um áhrif loftslagsvár í kafla E8 um loftslagseftirlit stjórna og kafla E9 um loftslagseftirlit stjórnenda.

Endurnýjanleg orkukræfni

Orkunotkun á hverja einingu í rekstri, t.d. tekna, framleiddar einingar o.s.frv. er stundum kölluð orkukræfni.

Endurnýjanleg orkukræfni samstæðu OR er mikil því fyrir hvert MJ sem samstæða OR nýtir af óendurnýjanlegri orku notar samstæða OR um 900 MJ af endurnýjanlegri orku.

Kolefnissporið mitt

15,76 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Dace Liapina

Verkefnastjóri, GR

Þetta háa kolefnisspor kom mér á óvart þegar ég sá það. En þegar ég hugsa betur um það þá hefði það átt að vera mér ljóst en ég var bara ekki nægilega meðvituð um það. Ég þarf klárlega að minnka neysluna, kaupa minna af óþarfa hlutum og fötum og fækka ferðum til útlanda.

E8 Loftslagseftirlit stjórnar

Stjórn OR hefur yfirumsjón með og stýrir loftslagstengdri áhættu hjá samstæðu OR.

Árið 2019 óskaði stjórn eftir upplýsingum um hugsanleg áhrif loftslagsvár á starfsemi OR og er unnið að öflun þessara upplýsinga. Í nóvember 2019 samþykkti stjórn OR markmið um kolefnishlutleysi samstæðunnar árið 2030. Unnið er að útfærslu í félögunum innan samstæðunnar.

Ennfremur samþykkti stjórn OR á haustmánuðum 2019 stofnun opinbers hlutafélags um kolefnisbindingaraðferðina CarbFix, sem nýtt hefur verið við Hellisheiðarvirkjun með góðum árangri síðustu ár. Í desember hlaut stofnun félagsins staðfestingu eigenda þ.e. Reykjavíkurborgar, Akranesbæjar og Borgarbyggðar.

E9 Loftslagseftirlit stjórnenda

Stjórnendur samstæðu OR hafa yfirumsjón með og stýra loftslagstengdri áhættu hjá samstæðunni.

Hjá samstæðu OR eru kortlögð áhrif loftslagsvár á starfsemi samstæðunnar. Áhersla er lögð á veitukerfin og aðlögun að meiri úrkomuákefð, leysingum, breytingum á hitastigi og sjávarborðshækkun. Í því sambandi fylgist vatnsveitan með örverumengun í neysluvatni í rauntíma þannig að unnt sé að bregðast við og tryggja gæði þess. Ennfremur leggur hitaveitan mat á eftirspurn eftir heitu vatni til framtíðar og bætta nýtingu þess til að tryggja afhendingaröryggi. Í fráveitunni er horft til spár um sjávarborðshækkun í áætlanagerð. Auk þess er horft til blágrænna ofanvatnslausna til að miðla og hreinsa regnvatn af götum og vegum, áður en það rennur út í ár og vötn, aðgerð sem einnig eykur líffræðilegan fjölbreytileika og bætir borgarumhverfi.

Þessi verkefni eru í senn mótvægisaðgerðir og aðlögun vegna loftslagsvár. Veitur, dótturfélag OR, vinna að innleiðingu þeirra í samstarfi við sveitarfélög.

E10 Mildun loftslagsáhættu

Árið 2019 fjármagnaði OR fjölmörg græn verkefni fyrir um 13 milljarða króna, þar af voru ný verkefni fjármögnuð fyrir um 1,5 milljarð króna. Um er að ræða verkefni vegna orkuvinnslu úr endurnýjanlegum orkugjöfum, svo sem raforkuvinnslu og stækkun hitaveitna, snjallvæðingu veitukerfa, kolefnisbindingu í bergi, verkefni til að auka viðnámsþrótt veitukerfa o.fl. Þessi fjármögnun er um 30% af veltu samstæðunnar.

CarbFix aðferðin sem beitt hefur verið við hreinsun koltvíoxíðs frá Hellisheiðarvirkjun með góðum árangri hófst sem rannsókna- og þróunarverkefni árið 2007. Frá upphafi hefur kostnaður vegna þróunar og reksturs þessarar aðferðar verið sjö milljarðar króna. Styrkir til CarbFix nema tæpum fimm milljörðum. Hreint fjárframlag OR samstæðunnar til CarbFix og skyldra verkefna er rúmlega tveir milljarðar króna. CarbFix verkefnið er sönnun þess að það borgar sig að verja þekkingu, tíma og fjármagni til umhverfis- og loftslagsverkefna.

Kolefnissporið mitt

9,74 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Olgeir Gunnsteinsson

Sérfræðingur í bilanaleit, Veitur

Þessi niðurstaða kom mér ekki mikið á óvart fyrir utan hvað neyslan er há hjá mér þar sem ég tel mig sjaldan kaupa óþarfa vörur. Einnig finnst mér neysla samfélagsins á óþarfa vörum og sóun matvæla frekar vanmetin í umræðunni þar sem þessi partur hefur bein áhrif á ferðir og mat í útreikningum á kolefnisjöfnun. Ég ferðast til og frá vinnu á hjóli og fer sjaldan til útlanda, yfirleitt ekki oftar en einu sinni á ári nema það sé vinnutengt.

Að draga úr losun frá samgöngum er eitt helsta sóknarfæri Íslendinga í loftslagsmálum og raunar einnig loftgæðamálum í þéttbýli. Vegna eðlis starfsemi OR og dótturfélaga getur samstæðan lagt gott til með því að stuðla að orkuskiptum í samgöngum.

Vorið 2019 var undirritað samkomulag milli Reykjavíkurborgar, Orkuveitu Reykjavíkur og Veitna um stórfellda uppbyggingu innviða í borginni fyrir rafbílaeigendur. Samkomulagið felur í sér að Veitur leggja til heimtaugar fyrir hleðslubúnað við starfsstöðvar sveitarfélagsins og eftir ábendingum íbúa. Þá leggja OR og Reykjavíkurborg fé í sjóð til að styrkja húsfélög fjölbýlishúsa til að koma upp hleðslubúnaði fyrir íbúa. Á árinu 2019 var 19,5 milljónum króna úthlutað úr sjóðnum. Veitur og OR gerðu síðan samsvarandi samninga við Akraneskaupstað og Garðbæ á árinu 2019. Hönnun og útboð hófust á árinu og framkvæmdir í ársbyrjun 2020.

Uppbygging Orku náttúrunnar á hlöðum með hraðhleðslum meðfram þjóðvegum og í þéttbýli hefur sýnt að rafbílar eru raunverulegur valkostur fyrir fólk og fyrirtæki. Orka náttúrunnar er í forystu uppbyggingar innviða fyrir orkuskipti í samgöngum hér á landi. Hlöður ON eru nú um 80 talsins, hringinn í kringum landið. Á árinu 2019 var mikil uppbygging búnaðar ON á einkalóðum fyrirtækja og stofnana sem að um helmingi er ætlaður almenningi.

Á árinu úthlutaði Orkusjóður styrkjum til uppbyggingar hleðslubúnaðar annars vegar við hótel og gististaði víða um land og hinsvegar til almennrar uppbyggingar hraðhleðslubúnaðar. Í ljósi góðrar reynslu af styrkveitingum til Orku náttúrunnar fékk fyrirtækið hæstu styrki í báðum flokkum.

Fjöldi rafbíla á Íslandi og ON hlaðanna

OR samstæðan hefur verið í fararbroddi í nýsköpun og þróun á sviði loftslags- og umhverfismála undanfarinn áratug. Bætt loftgæði vegna minni losunar koltvíoxíðs og brennisteinsvetnis frá Hellisheiðarvirkjun með CarbFix og SulFix niðurdælingaraðferðinni, uppsetning á hlöðum fyrir rafbíla, orkuskipti í samgöngum og binding í skógarjarðvegi á lendum OR eru skýr dæmi um það.

Unnið er samkvæmt fjölda samstarfssamninga og -áætlana um vísindi og tækni við háskólasamfélagið innanlands og erlendis. Samstarf atvinnulífs og háskólasamfélagsins er oftar en ekki forsenda þess að hugmyndir geti þróast yfir í raunveruleg verkefni sem nýtast atvinnulífinu.

Dæmi um slík verkefni sem unnið er að hjá OR samstæðunni og vonir eru bundnar við:

  • Sporlaus vinnsla jarðhita
  • Áframhaldandi þróun á bindingu koltvíoxíðs í grjót
  • Orkuskipti í samgöngum á Íslandi
  • Tilraun með framleiðslu á vetni sem orkugjafa á Hellisheiði
  • Örvun á jarðhitaholu í Geldinganesi
  • Áhrif skógræktar á kolefnisforða í skógarjarðvegi á lendum OR