Vatnsból Veitna eru þrettán og er vatnið notað á höfuðborgarsvæðinu og á Vestur- og Suðurlandi. Vatnsból Orku náttúrunnar eru tvö. Dreifikerfi vatnsveitnanna þjónar alls um 45% þjóðarinnar. Markvisst hefur verið unnið að vatnsvernd, öðrum forvörnum og eftirliti til að tryggja gæði vatnsins.
Leysing og úrkoma geta valdið örverumengun í vatnstökuholum Veitna. Haustið 2019 mældust örverur yfir viðmiðunarmörkum í tveimur vatnssýnum úr borholum við Grábrók á Vesturlandi og einu sýni úr dreifikerfinu. Vegna mikillar úrkomu, í kjölfar þurrka sumarið 2019, komst yfirborðsvatn ofan í grunnvatn með þessum afleiðingum. Veitur hafa sett upp búnað til að lýsa kalda vatnið úr vatnsbólinu við Grábrók og hluta þess kalda vatns sem íbúar höfuðborgarsvæðisins fá úr vatnsbólunum í Heiðmörk. Með því eru örverur, sem geta borist í vatnsbólin, gerðar óvirkar áður en vatninu er veitt út í dreifikerfið. Vatn úr borholum á svokölluðu neðra svæði vatnstökusvæðisins í Heiðmörk fer í gegnum lýsingarbúnaðinn. Ekki er talin ástæða til að lýsa vatn úr dýpri holunum í Heiðmörk. Lýsing á vatni gerir einungis örverur óvirkar en kemur ekki í veg fyrir annars konar mengun, svo sem af völdum olíu og annarra efna. Hún dregur því ekki úr mikilvægi vatnsverndar í Heiðmörk.
Vatnsvernd
Vatnsverndarsvæði eru afmörkuð utan um vatnsból Veitna. Fylgst er með vatnsverndarsvæðum, þar á meðal flutningi á olíu, bensíni og öðrum varasömum efnum í Heiðmörk. Slys og atvik vegna hættulegrar hegðunar innan vatnsverndarsvæða eru skráð, fjallað um þau og ráðist í úrbætur eftir því sem við á. Til að fyrirbyggja mengunarslys tekur starfsfólk Veitna og verktakar sem vinna að framkvæmdum á vatnsverndarsvæðum umhverfisnámskeið áður en framkvæmd hefst. Þessi krafa er sett fram útboðsgögnum.
Til að minnka hættu á olíu- og efnaslysi á vatnsverndarsvæði höfuðborgarsvæðisins hafa Veitur átt samráð við Vegagerðina, Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og heilbrigðisnefndir sveitarfélaganna um lokanir og úrbætur á vegum ásamt því að gera frekari grunnvatnsrannsóknir á svæðinu.
Örplast
Afar lítið örplast finnst í neysluvatni frá vatnsveitum Veitna. Það sýnir rannsókn gerð af ReSource International ehf. (RI) en tekin voru sýni í borholum, vatnsbólum, vatnstönkum og dreifikerfum. Fundust örplastsagnir í um helmingi sýnanna í dreifikerfinu en minna í borholum og vatnstönkum. Miðgildi þeirra vatnssýna sem tekin voru sýndi að um ein ögn fannst í hverjum 10 lítrum vatns. Til samanburðar má nefna að í rannsókn ORB Media á neysluvatni víða um veröld, sem birt var árið 2018, fundust að meðaltali 50 örplastsagnir í 10 l vatns. Í skýrslu sem gefin var út af Alþjóða heilbrigðismálastofnuninni (WHO), í ágúst 2019 kemur fram að þrátt fyrir að ekki sé til mikið af upplýsingum, sérstaklega um mjög smáar örplastsagnir, séu engar vísbendingar um að þær séu hættulegar heilsu manna. Stofnunin tekur fram að frekari rannsókna sé þörf.