sidenav arrow up
sidenav arrow down

Fjárhagur

Árið 2019 var ár verulegra fjárfestinga hjá OR. Þær námu samtals 19,4 milljörðum króna og jukust um þrjá milljarða króna frá fyrra ári. Helsta ástæðan var mikil uppbygging húsnæðis á starfssvæði samstæðunnar. Traust fjárhagsstaða fyrirtækjanna gerði þeim kleift að mæta þessum vexti og fjármagna hann með hagkvæmum hætti.

Á árinu 2019 hóf Orkuveita Reykjavíkur útgáfu grænna skuldabréfa til fjármögnunar á hluta þessara miklu fjárfestinga að undangengnu mati óháðs matsfyrirtækis á útgáfunni. Bréfin fengu hæstu einkunn, dökkgrænan lit, hvorttveggja fyrir sjálfbærni verkefnanna og stjórnsýslu fjármögnunarinnar. Bréf OR voru, fyrst grænna skuldabréfa frá íslensku fyrirtæki, boðin á opnum markaði og í framhaldinu tekin til skráningar á markaði Nasdaq Ísland fyrir sjálfbær skuldabréf.

Hagsýni er eitt gilda OR og snýr það sérstaklega að fjármálum fyrirtækisins. Unnið er eftir fjárhagslegum markmiðum sem stuðla að því að OR og dótturfyrirtækin;

  • búi við traustan fjárhag,
  • séu rekin með viðunandi áhættu,
  • bjóði sanngjarnt verð fyrir þjónustuna,
  • geti greitt eigendum arð af eigum sínum.

Orkuveita Reykjavíkur, sem er að öllu leyti í eigu sveitarfélaga, lítur svo á að fjárhagslegur styrkur fyrirtækisins styðji almennt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 11 um sjálfbærar borgir og samfélög.

Tekjur, gjöld, EBITDA og EBIT

Mikill stöðugleiki einkennir helstu stærðir í rekstri OR síðustu ár. Tekjuaukinn skýrist einkum af aukinni sölu en lækkun á framlegð og rekstrarhagnaði árið 2019 skýrist einkum af auknum fjárfestingum.

EBITDA stendur fyrir framlegð rekstursins án fjármagnsliða, afskrifta, skatta og endurmats eigna. EBIT er rekstrarafkoman án fjármagnsliða og skattgreiðslna.

Tekjur, gjöld, EBITDA og EBIT

Kolefnissporið mitt

6,59 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Jóna Sigurlína Pálmadóttir

Starfsmaður Jarðhitasýningar, ON

Ég kaupi mjög lítið á mig og eyði aðallega peningnum mínum í mat og nauðsynjavörur og kaupi bara hluti þegar ég þarf á þeim að halda. Því kemur þessi niðurstaða mér á óvart. Held að ástæðan fyrir hárri neyslu sé vegna láns er hvílir á bílnum mínum. Svo er ég kjötæta sem hefur líka mikil áhrif á kolefnissporið. Ég er með nokkuð lægra kolefnisspor en meðaltalið en ég þarf að bæta það. Að borða minna kjöt er næsta skrefið.

EBITDA framlegð

Framlegð reksturs OR samstæðunnar hefur verið stöðug og góð síðustu ár. Framlegðin þarf meðal annars að standa undir fjárfestingum fyrirtækjanna í samstæðu OR. Reksturinn krefst verulegra fjárfestinga til að halda við veitukerfum og virkjunum, sinna nýjum viðskiptavinum og mæta auknum kröfum sem til rekstursins eru gerðar. Hér er framlegðin sýnd sem hlutfall af heildartekjum.

EBITDA framlegð

Vaxtaþekja

Vaxtaþekjan segir til um hversu fyrirtækið er fært um að standa undir vaxtakostnaði af lánum sem á því hvíla. Eigendur OR hafa sett það skilyrði fyrir arðgreiðslu til þeirra að handbært fé frá rekstrinum að viðbættum vaxtagjöldunum séu að minnsta kosti 3,5 sinnum hærri en vaxtagjöld. OR var undir því markmiði rétt eftir hrun en yfir því allt frá árinu 2010.

Vaxtaþekja

Nettó skuldir

Þyngstur var skuldabaggi OR í árslok 2009. Þá námu nettóskuldirnar 226,4 milljörðum króna . Í árslok 2019 höfðu þær verið greiddar niður um 90 milljarða króna.

Nettóskuldir eru vaxtaberandi skuldir að frádregnum vaxtaberandi eignum.

Nettó skuldir

Kolefnissporið mitt

8,62 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Einar Sigurðsson

Rafveituvirki, ON

Ég þarf líklega að fara huga að því að fá mér rafbíl og fækka flugferðum eins og kostur er. Sú staðreynd að ég er tækjasjúkur og þarf alltaf að eiga nýjustu græjurnar eykur neysluna og hefur þannig neikvæð áhrif á kolefnissporið mitt. En ég borða mikið grænmeti. En það er ekki gott fyrir ON ef allir minnka orkunotkunina.

Nettó skuldir / Handbært fé frá rekstri

Mælikvarðinn sýnir hlutfallið milli nettó skulda og handbærs fjár í lok árs. Hann segir hversu mörg ár það tæki að greiða niður nettó skuldir með handbæru fé væri það einungis nýtt til þess.

Nettó skuldir / Handbært fé frá rekstri

Arðsemi fjármagns

Í eigendastefnu OR er kveðið á um innleiðingu mælikvarða sem sýni arðsemi þess fjármagns sem eigendur hafa bundið í rekstrinum (Return On Capital Employed). Hún skal að lágmarki vera umfram fjármagnskostnað fyrirtækisins að viðbættu eðlilegu áhættuálagi.

Í október 2018 samþykkti stjórn OR arðsemisstefnu og var hún staðfest á eigendafundi í nóvember 2018.

Arðsemi fjármagns (ROCE)

Veltufjárhlutfall

Eitt skilyrðanna fyrir arðgreiðslum til eigenda er að veltufjárhlutfallið sé ekki lægra en 1. Það þýðir að fyrirtækið á fé í sjóði sem dugar fyrir skuldbindingum næstu 12 mánaða.

Veltufjárhlutfall

Kolefnissporið mitt

11,73 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Þórunn Ása Þórisdóttir

Verkefnastjóri Tækniþjónustu- og afhendingardeildar, GR

Að nota Kolefnisreikninn gefur yfirsýn og hugmyndir um hvað má gera betur. Ég hafði t.d. ekki hugsað út í að skrúfa oftar fyrir ofninn eða skipta ljósaperum yfir í LED perur. Það þarf að leiðrétta hugsanavillur þannig að hegðun breytist. Af hverju t.d. finnst mér það sjálfsagt að keyra í vinnuna þegar ég get hjólað? Eða fara í búðina mörgum sinnum í viku þegar ein ferð dugir? Og af hverju er fjölskyldan ekki duglegri að nýta matarafganga, það má útbúa aðra rétti úr þeim. Þetta skiptir allt máli.

Eiginfjárhlutfall

Eiginfjárhlutfall segir til um hversu miklar skuldir hvíla á fyrirtækinu í samanburði við eignir þess. Heildareignir OR voru metnar á 340,1 milljarða króna í lok árs 2019. Markmið eigenda og OR hefur verið að eiginfjárhlutfallið sé ekki lægra en 35% en 40% til lengri tíma.

Eiginfjárhlutfall

Sjóðstaða

Í rekstrar- og efnahagsreikningi hvers fyrirtækis er fjöldi reiknaðra stærða sem eiga að skerpa myndina af rekstrinum á tilteknu tímabili og stöðu hans í lok þess. Sjóðstreymisyfirlitið gefur hinsvegar gleggri mynd af raunverulegu peningastreymi til fyrirtækisins og frá því og hvaða þættir hafa áhrif á handbært fé fyrirtækisins á tímabilinu. Lengst til vinstri sést handbært fé í byrjun árs 2019 og lengst til hægri í árslok.

Sjóðstaða

Lánshæfismat

Lánshæfismat er mikilvægt þeim fyrirtækjum sem skipta við fjármálastofnanir og eru með skráð verðbréf á mörkuðum. Matið hefur þann tilgang að gefa lánveitendum hlutlæga mynd af stöðu og framtíðarhorfum fyrirtækisins. Lánshæfiseinkunn Orkuveitu Reykjavíkur og annarra íslenskra fyrirtækja getur aldrei orðið hærri en einkunn ríkissjóðs. Einkunnagjöf OR nýtur góðs af ábyrgðum eigenda á lánum. Í dag meta þrjú fyrirtæki lánshæfi Orkuveitu Reykjavíkur; alþjóðlegu fyrirtækin Moody‘s og Fitch og Reitun innanlands.

Kolefnissporið mitt

7,18 tonn CO2 ígilda á ári Meðalkolefnisspor íbúa á Íslandi er um 12 tonn

Jón Pétur Skúlason

Sérfræðingur í útboðum og samningagerð, OR

Ég veit ekki hvort þetta er stórt kolefnisspor samanborið við aðra Íslendinga en mest áhrif hefur líklega sú staðreynd að ég geng eiginlega undantekningarlaust í vinnuna. Besta leiðin fyrir mig til að minnka sporið er líklega að skipta meira yfir í fæðu úr jurtaríkinu, ég sé það samt ekki gerast alveg á næstunni.

Áhættustýring

Gjaldeyrisáhætta

Gjaldeyrisáhætta OR er einkum vegna erlendra lána og tekna Orku náttúrunnar af raforkusölu í bandaríkjadölum. Áhættustefna OR felur í sér að mörk eru sett á hugsanlegt misvægi í rekstri og efnahag vegna þessa. Framvirkir samningar eru gerðir til að draga úr áhættu af óhagstæðri gengisþróun og myndin sýnir áætlað gjaldeyrisstreymi samstæðunnar næstu ár.

Áætlað gjaldeyrisflæði

Vaxtaáhætta

Hækkun vaxta felur í sér áhættu fyrir rekstur og efnahag OR. Dregið hefur verið úr áhættunni á undanförnum árum með því að draga á ný lán með föstum vöxtum og með framvirkum skiptasamningum. Súlurnar sýna hversu mikill hluti heildarskuldbindinga hvers árs ber fasta vexti. Áhætta OR af vaxtahækkunum er nú óveruleg.

Varnarhlutfall vaxta

Álverðsáhætta

OR gerir áhættuvarnarsamninga til þess að verja tekjur af orkusölu til stóriðju fyrir mikilli lækkun álverðs. Slíkir samningar eru gerðir nokkur misseri fram í tímann og myndin sýnir að hve miklu leyti slíkar tekjur hafa verið varðar. Stjórn OR ákvarðar efri og neðri mörk varnarhlutfalla.

Álvarnarhlutfall

Gjaldeyrisjöfnuður í efnahag

Erlendar eignir OR voru umfram erlendar skuldir í árslok 2019. Ástæðan er að starfrækslugjaldmiðill dótturfélagsins Orku náttúrunnar er bandaríkjadalir og eignir þess félags eru meiri en sem nemur öllum skuldum OR í erlendum gjaldeyri.

Gjaldeyrisjöfnuður í efnahag