Árið 2019 var ár verulegra fjárfestinga hjá OR. Þær námu samtals 19,4 milljörðum króna og jukust um þrjá milljarða króna frá fyrra ári. Helsta ástæðan var mikil uppbygging húsnæðis á starfssvæði samstæðunnar. Traust fjárhagsstaða fyrirtækjanna gerði þeim kleift að mæta þessum vexti og fjármagna hann með hagkvæmum hætti.
Á árinu 2019 hóf Orkuveita Reykjavíkur útgáfu grænna skuldabréfa til fjármögnunar á hluta þessara miklu fjárfestinga að undangengnu mati óháðs matsfyrirtækis á útgáfunni. Bréfin fengu hæstu einkunn, dökkgrænan lit, hvorttveggja fyrir sjálfbærni verkefnanna og stjórnsýslu fjármögnunarinnar. Bréf OR voru, fyrst grænna skuldabréfa frá íslensku fyrirtæki, boðin á opnum markaði og í framhaldinu tekin til skráningar á markaði Nasdaq Ísland fyrir sjálfbær skuldabréf.
Hagsýni er eitt gilda OR og snýr það sérstaklega að fjármálum fyrirtækisins. Unnið er eftir fjárhagslegum markmiðum sem stuðla að því að OR og dótturfyrirtækin;
- búi við traustan fjárhag,
- séu rekin með viðunandi áhættu,
- bjóði sanngjarnt verð fyrir þjónustuna,
- geti greitt eigendum arð af eigum sínum.
Orkuveita Reykjavíkur, sem er að öllu leyti í eigu sveitarfélaga, lítur svo á að fjárhagslegur styrkur fyrirtækisins styðji almennt við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna númer 11 um sjálfbærar borgir og samfélög.