Brynhildur Davíðsdóttir
Það er mikilvægt markmið að rekstur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaganna allra sé með þeim hætti að væntingar þess almennings sem á fyrirtækið séu uppfylltar. Það eru væntingar um að grunnþörfum samfélagsins fyrir vatn og orku sé sinnt með traustum og áreiðanlegum hætti. Það sé líka gert af virðingu fyrir umhverfi og auðlindum þannig að sama þjónusta eða betri standi framtíðarkynslóðum til boða og allt þarf þetta að gera af fjárhagslegri ábyrgð svo reksturinn standist tímans tönn.
Á síðustu árum hafa sífellt fleiri fyrirtæki verið að slípa til eigin markmið og meitla þannig að þau séu í samræmi við einhver umfangsmestu markmið sem mannkynið hefur komið sér saman um. Það eru Heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna sem samþykkt voru haustið 2015.
Heimsmarkmiðin um sjálfbæra þróun eru 17 og undirmarkmiðin 169 talsins. Þau fléttast saman og miða að því að gera mannlíf á jörðinni betra, að tryggja lífsgæði og ekki síst að bæta sambúð mannsins við umhverfi sitt. Með þeim er horft til stoðanna þriggja sem hver um sig, sem og sameiginlega, þurfa að vera traustar; umhverfisins, samfélaganna og efnahagsins.
Kerfisbundin vinna Orkuveitu Reykjavíkur að Heimsmarkmiðunum hófst árið 2017 og hefur hún þróast síðan. Í Ársskýrslu fyrir árið 2017 gerðum við grein fyrir því hvernig við teljum starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur tengjast markmiðunum, í skýrslunni 2018 fjölluðum við líka um undirmarkmið Heimsmarkmiðanna 17 og nú hefur stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkt með formlegum hætti að leggja sérstaka áherslu á fjögur Heimsmarkmiðanna. Þau eru þessi:
Þessi fjögur markmið voru valin eftir að haldnar voru vinnustofur með starfsfólki samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, stjórnendum fyrirtækjanna innan hennar og ekki síst með ytri hagsmunaaðilum. Í þeirri vinnustofu hlustuðum við eftir væntingum mikilvægra birgja, viðskiptavina, eftirlitsstofnana og annarra samstarfsaðila til frammistöðu okkar með tilliti til Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Þeirra áherslur voru eilítið aðrar en við sáum innanhúss og var sérstaklega gleðilegt að Heimsmarkmiðið um ábyrga neyslu og framleiðslu, sem snýr ekki síst að birgjunum sjálfum skyldi lenda efst í forgangsröðun ytri hagsmunaaðilanna. Það er góðs viti. Í framhaldi af því að stjórn OR setti þessi fjögur markmið í forgang verður öll stefna OR skoðuð við reglulega rýni með tilliti til þessara markmiða og undirmarkmiða þeirra.
Takist heimsbyggðinni að ná Heimsmarkmiðunum á næsta áratug, eins og stefnt er að, fullyrði ég að forsendur blómlegra mannlífs verða traustari en nokkru sinni fyrr. Þess vegna er mikilvægt að við leggjum öll af mörkum, ekki bara sem einstaklingar heldur líka fyrirtækin, ekki síst þau sem eru í almannaeigu.
Stjórn OR hélt 14 formlega fundi á árinu 2019. Snemma árs fór stjórn í kynningarferð um starfssvæði fyrirtækisins og hélt vinnufundi til undirbúnings stefnumótunarvinnu, sem lauk með stefnumörkun stjórnar. Haldinn var kynningarfundur fyrir nýja stjórnarmenn, sem tóku sæti eftir aðalfund. Auk aðalfundar voru haldnir þrír eigendafundir á árinu; reglubundinn eigendafundur um fjármál í nóvember, eigendafundur í júlí þar sem kjöri stjórnar var lýst og sérstakur fundur til að staðfesta stofnun nýs dótturfélags um CarbFix-verkefnið. Þá fór stjórn í gegnum árlegt mat á eigin störfum á árinu.
Starfsfólki öllu í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, stjórnendum og stjórnarmönnum færi ég bestu þakkir fyrir vel unnin störf árið 2019.